Afgreiðsla forsætisnefndar á beiðni um skýrslu

Mánudaginn 03. febrúar 2003, kl. 15:10:45 (3289)

2003-02-03 15:10:45# 128. lþ. 70.92 fundur 392#B afgreiðsla forsætisnefndar á beiðni um skýrslu# (aths. um störf þingsins), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 128. lþ.

[15:10]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Hér á sér stað afskaplega óvenjuleg uppákoma í sögu þingsins, hygg ég vera, að forseti verji einum 11 mínútum í að gera grein fyrir hlutum sem átt hafa sér stað í forsn. þingsins. Ég kann honum svo sem þakkir fyrir það. Enda er hér um afskaplega óvenjulega afgreiðslu að ræða af hálfu forseta Alþingis, þ.e. að leggjast gegn því að áframsenda beiðni um skýrslu Ríkisendurskoðunar frá 17 þingmönnum á hinu háa Alþingi. Venja hefur staðið til þess árum saman að forsn. áframsendi einfaldlega slík erindi. Þess í stað greip forseti til þess ráðs að leggjast gegn því og það liggur fyrir.

Auðvitað er þetta allt í anda þess sem áður hefur gerst og er enn að gerast, þ.e. að stjórnarmeirihlutinn á hinu háa Alþingi og nú sjálfur forseti Alþingis leggst hér þvert fyrir þegar beðið er um einfaldar upplýsingar, þegar alþingismenn reyna að freista þess að uppfylla stjórnarskrárbundna skyldu sína, að veita framkvæmdarvaldinu aðhald og eftirlit. Hér er einfaldlega verið að gangast eftir því að fá sömu upplýsingar og stjórn Landssímans hf. hefur fengið, nákvæmar upplýsingar um það sem rætt var og reifað í þessum sal, ekki einu sinni, ekki tvisvar heldur mörgum sinnum á síðasta ári þegar málefni Landssímans komust í hámæli.

Hér hefur forseti Alþingis gengið í lið með þeim sem eru í samsæri þagnarinnar, í feluleiknum og vilja viðhalda leynimakkinu. Við ræddum utan dagskrár í síðustu viku, starfslokasamninga á hinum almenna markaði. Hér er um við að ræða starfslok forstjóra fyrirtækis sem er 95% í eigu þjóðarinnar, almennings, og hæstv. samgrh. ber ábyrgð á.

Herra forseti. Er að furða þó að ég sé satt að segja því sem næst orðlaus því að þjóðin er það líka?

(Forseti (HBl): Það er nú ekki sami munnurinn.)