Afgreiðsla forsætisnefndar á beiðni um skýrslu

Mánudaginn 03. febrúar 2003, kl. 15:14:28 (3291)

2003-02-03 15:14:28# 128. lþ. 70.92 fundur 392#B afgreiðsla forsætisnefndar á beiðni um skýrslu# (aths. um störf þingsins), LB
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 128. lþ.

[15:14]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Það er að verða dálítið sérstakt að í hverri einustu viku skuli fara fram umræða á hinu háa Alþingi um hvort birta megi starfslokasamninga við tiltekna einstaklinga. Í síðustu viku ræddum við hvort ekki væri mikilvægt fyrir markaðinn að fá að vita þegar fyrirtæki á markaði gera stóra og feita samninga við einstaklinga, að þeim yrði komið á framfæri. Hér er hins vegar um það að ræða að fá upplýsingar um starfslokasamning fyrirtækis í eigu ríkisins.

Við höfum þurft að horfa upp á ýmislegt á undanförnum missirum og séð hvernig valdhafar hafa beitt valdi sínu í hverju málinu á fætur öðru. Það hefur hins vegar verið mjög sérstakt að verða vitni að því að forseti þingsins, sem á að gæta að hagsmunum þingmanna og tryggja að þeir geti sinnt stjórnarskrárbundnu hlutverki sínu, skuli meina að mál af þeim toga sem hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson bar fram nái fram að ganga.

Við hljótum að spyrja: Af hverju er svona óskaplega mikill trúnaður yfir þessu? Hvað veldur þessum mikla trúnaði? Ekki er það svo, ef marka má fréttir af þessu máli, að þetta sé svo há fjárhæð miðað við stærð fyrirtækisins, þ.e. Símans. Hvað er það þá sem menn eru að fela? Menn eru greinilega í einhverju sem ekki þolir dagsljósið og það er sorglegt að vita til þess að forseti þingsins, hv. þm. Halldór Blöndal, skuli ganga í lið með þeim sem vilja koma í veg fyrir að þingið geti náð í þær upplýsingar sem því ber að sækja og sinnt því starfi sem því ber að sinna, sem hluti af ríkisvaldinu, löggjafarsamkundan sem á að veita framkvæmdarvaldinu aðhald.

Þetta er sorglegt, virðulegi forseti, og að minni hyggju misbeiting á valdi.