Afgreiðsla forsætisnefndar á beiðni um skýrslu

Mánudaginn 03. febrúar 2003, kl. 15:21:05 (3295)

2003-02-03 15:21:05# 128. lþ. 70.92 fundur 392#B afgreiðsla forsætisnefndar á beiðni um skýrslu# (aths. um störf þingsins), JB
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 128. lþ.

[15:21]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Hérna er verið að ræða ákveðin atriði sem lúta að starfslokum forstjóra Landssímans og það að ekki megi upplýsa þau vegna þess að þau séu viðskiptaleyndarmál.

Herra forseti. Ég held að hér séum við á mjög alvarlegri braut. Viðskiptaleyndarmál sem verja fyrirtæki fyrir gagnsæi geta ekki verið atvinnulífinu eða þeim atvinnurekstri til framdráttar. Að mínu mati eiga að gilda nákvæmlega sömu siðferðiskröfur til opinbers rekstrar og einkarekstrar, nákvæmlega sömu. Hér er bara eitt þjóðfélag. Við erum ein þjóð og hið sama á að gilda um alla. Ef farið er að taka kröfuna um viðskiptaleynd fram yfir eðlilegar kröfur og eðlilegar upplýsingar þá erum við á rangri braut. Það er sama hvort um er að ræða opinberan rekstur, opinbera þjónustu, einstaklingsrekstur eða einkarekstur, umgjörð þessa atvinnulífs alls, umgjörð þessa atvinnurekstrar og viðskipta allra á að vera gagnsæ því að það styrkir hina raunverulegu samkeppni. Samkeppnisstaða sem byggir á leynd, feluleik, aðdróttunum og því að málin eru ekki öll uppi á borðunum er ekki reist á heilbrigðum grunni. Ef svo er að hér þurfi að bæta úr þá þarf að breyta lögum þannig að hér verði allt viðskiptalíf og atvinnulíf gagnsætt, miklu gagnsærra og það mun reynast samkeppnisstöðu þessara fyrirtækja til heilla, virðulegi forseti.