Hækkun á leyfilegum heildarafla fiskveiðiárið 2002/2003

Mánudaginn 03. febrúar 2003, kl. 15:40:04 (3302)

2003-02-03 15:40:04# 128. lþ. 70.96 fundur 396#B hækkun á leyfilegum heildarafla fiskveiðiárið 2002/2003# (umræður utan dagskrár), Flm. ÁSJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 128. lþ.

[15:40]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs utan dagskrár vegna þess að eins og þingheimi er kunnugt hefur hæstv. sjútvrh. ákveðið að auka við aflaheimildir á fiskveiðiárinu 2002. Um er að ræða verulega aukningu þar sem ufsi er hækkaður úr 37 þús. í 45 þús. tonn, sandkoli úr 4 þús. í 7 þús. tonn, kolmunni úr 282 þús. tonnum í 318 þús. tonn og úthafskarfi hækkar úr 45 þús. tonnum í 55 þús. tonn. Hér er um verulega aukningu á aflaheimildum að ræða og ráðuneytið hefur látið fara frá sér að hér sé um það að ræða að verð sjávarafurða muni hækka um liðlega 2%, þ.e. 2,5--2,8 milljarða. Hér er verið að tala um að að samanlögðu gerði spáin ráð fyrir að verðmæti sjávarfangs yrði 128 milljarðar en verði samkvæmt þessari nýju uppsetningu liðlega 130 milljarðar kr.

Mér finnst mikilvært að ræða þetta á hinu háa Alþingi og að hæstv. sjútvrh. komi fram með röksemdafærslu sína fyrir þessari aukningu því að um hana eru deildar meiningar vísindamanna. Hæstv. sjútvrh. verður að upplýsa þingið um það hvort hér sé um fiskifræðilega röksemd að ræða eða ekki. Enn fremur held ég að það sé mjög mikilvægt að hæstv. ráðherra skýri fyrir þinginu hvort hér sé um stefnubreytingu að ræða, hvort hann muni í framtíðinni ákveða aukningu á kvótum eða minnkun frá mánuði til mánaðar eða missiri til missiris.

Síðan er mjög mikilvægt að fá upplýst, virðulegi forseti, hvort hæstv. ráðherra sé hér fyrst og fremst með efnahagslega aðgerð til að bæta stöðu útgerðarinnar nú um stundir. Eins og kunnugt er hefur krónan styrkst verulega síðasta árið, dollarinn er nú 25% ódýrari en fyrir ári og þar af leiðandi hafa bandarískar vörur lækkað í innkaupum. Styrking krónunnar hefur gríðarlega neikvæð áhrif fyrir útflutning og innlenda framleiðslu sem keppir við innflutning. Hér er um afar alvarlega stöðu að ræða og það er sama hvar farið er um landið, útgerðarmenn sérstaklega og jafnframt rekstraraðilar fiskvinnslufyrirtækja hafa gríðarlega miklar áhyggjur. Þess vegna held ég að það sé mjög mikilvægt að fram komi hvort þessi kvótaaukning sé fyrst og fremst hugsuð til þess að bæta stöðu útgerðarinnar tímabundið.

Krónan hefur styrkst verulega að undanförnu gagnvart helstu gjaldmiðlum. Bara það sem af er þessu ári hefur krónan styrkst um tæp 3%. Verð á dollara í krónum hefur lækkað verulega eins og áður kom fram og styrkingin gagnvart evru er talin minni. Á einu ári nemur lækkun dollara gagnvart krónunni 25% en það er ekki bara sjávarútvegurinn sem hér um ræðir, undirstöðuútflutningsgreinar okkar, beint eða óbeint, líða líka fyrir þetta ástand. Sjávarútvegurinn dregur að vísu 50% af því sem við fáum inn til landsins í gjaldeyri en hér er samtengd t.d. ferðaþjónusta sem er okkur gríðarlega mikilvæg úti um allt land og stendur fyrir 13--14% af innkomnum gjaldeyri. Þess vegna held ég, virðulegi forseti, að þetta séu mikilvægar spurningar um hvort hér sé um stefnubreytingu að ræða af hálfu hæstv. sjútvrh. eða hvort hann byggi á fiskifræðilegum rökum.

Ég vil taka það fram að fiskifræði sjómannsins gefur okkur mörgum sannfærandi rök fyrir því að í vissum tilfellum sé óhætt og kannski æskilegt að auka veiðiheimildir. Eins og fregnir berast t.d. núna af stöðu ufsastofnsins og veiðum úr þeim stofni er margt sem bendir til þess að þar sé um verulegan bata að ræða. Þetta eru mál sem þarf að ræða í þaula, virðulegi forseti.

Hér komu fram þessar meginspurningar þrjár og þá sérstaklega um peningalega stöðu sjávarútvegsins núna gagnvart gengi krónunnar og hvernig samhengi þessara hluta sé hvað varðar sýn ráðuneytisins á stjórn fiskveiða nú um stundir.