Hækkun á leyfilegum heildarafla fiskveiðiárið 2002/2003

Mánudaginn 03. febrúar 2003, kl. 15:50:33 (3304)

2003-02-03 15:50:33# 128. lþ. 70.96 fundur 396#B hækkun á leyfilegum heildarafla fiskveiðiárið 2002/2003# (umræður utan dagskrár), JÁ
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 128. lþ.

[15:50]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Það er nú árlegur viðburður að úthlutað sé til viðbótar verulegum aflaheimildum á miðju ári og það hlýtur að vekja upp þær spurningar hvort það ætti bara ekki að gera það í öllum fiskstofnum úr því þörf er á því í sumum. Það er líka umhugsunarefni hvers vegna ekki er þá lækkað í neinni tegund, einungis farið fram til hækkunar.

Ég verð að segja að fiskifræðilegu rökin sem hafa verið færð fram fyrir þessum breytingum eru kannski ekkert sérstaklega sterk. Ég held því ekki fram að tillögurnar frá því í vor hafi endilega verið svona óskaplega góðar. En það er undarlegt að þær skuli ekki duga nema í nokkra mánuði, sex mánuði, og þá þurfi menn að breyta þó ekki séu nema sex mánuðir í næstu úthlutun.

Það er líka skrýtið að sjá það að aðalrökin sem koma fram í tilkynningu ráðuneytisins virðast vera sótt í að það sem nú hafi verið úthlutað sé jafngildi þess sem skert var. Þetta gerðist nefnilega nákvæmlega svona fyrir ári síðan líka. Þá voru aðalrökin frá ráðuneytinu týnd fram um að verið væri að úthluta í staðinn fyrir skerðinguna og meira að segja rúmlega.

Ég verð að viðurkenna að það læðist að mér sá grunur að menn séu líka dálítið að horfa í fjárhagslega stöðu sjávarútvegsins þegar þeir eru að velta fyrir sér líffræðilegu rökunum og fiskifræði sjómannsins. Var það kannski fiskifræði sjómannsins sem réði, hæstv. ráðherra, þegar settur var kvóti á þær tegundir sem komu inn fyrir tveimur eða þremur árum, skötusel og keilu? Hvaða sjómenn lögðu það til?

Ég verð að viðurkenna að mér finnst ekki mjög trúverðugt að sjá hvernig sumar af þessum breytingum koma fram. Þær virðast ekki vera byggðar á því að lífríkið hafi breyst. Mér finnst eins og stjórnvöld séu orðin æðiráðvillt í því hvort þau ætla að fara eftir fiskifræðingum eða fiskifræði sjútvrh.