Hækkun á leyfilegum heildarafla fiskveiðiárið 2002/2003

Mánudaginn 03. febrúar 2003, kl. 16:00:03 (3308)

2003-02-03 16:00:03# 128. lþ. 70.96 fundur 396#B hækkun á leyfilegum heildarafla fiskveiðiárið 2002/2003# (umræður utan dagskrár), SI
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 128. lþ.

[16:00]

Sigríður Ingvarsdóttir:

Herra forseti. Það er erfitt að gera svo öllum líki í þessum efnum. Ráðherra hefur tekið þann kost að fara bil beggja, þ.e. að fara eftir ráðleggingum Hafró t.d. hvað sandkolann varðar, en taka tillit til svokallaðrar fiskifræði sjómannsins þegar kemur að ufsanum, en hæstv. sjútvrh. hefur stundum legið undir ámælum fyrir að taka ekki nægilegt tillit til hennar. Sú fiskifræði gengur út á tilfinningar og byggist á mikilli reynslu og þekkingu starfandi sjómanna sem enginn skyldi vanmeta, en ekki faglegum mælingum. Stundum er reyndar erfitt að koma faglegum mælingum við og á það við um ufsann en hann er flökkufiskur og því eru göngur mismunandi milli ára. Ufsi veiðist að verulegu leyti sem meðafli við botnfiskveiðar, bæði þorskveiðar og karfaveiðar. Ef hlutföll tegunda í aflamarki við blandaðar veiðar eru fjarri öllum veruleika og mjög frábrugðin því hlutfalli sem fæst í afla skapast vandræði. Þetta hefur verið vandinn undanfarin ár hvað ufsann varðar.

Þrátt fyrir að menn forðist eftir bestu getu að veiða ufsa var samt svo komið að vöntun á ufsakvóta hamlaði botnfiskveiðum, ekki hvað síst karfaveiðum. Í blandaðri veiði getur verið erfitt að eiga við það að halda veiðum á ákveðnum tegundum niðri.

Við vitum að þrýstingur um auknar veiðiheimildir er mikill og því miður eru menn ekki tilbúnir til að minnka heimildir virðist stofnar í lægð. En ef meira virðist af ákveðnum fisktegundum á miðunum kemur ávallt þrýstingur á auknar veiðiheimildir.

Varðandi ufsann hefur mikil óvissa ríkt í stofnmatinu á honum og í ljósi þess og vegna þess að stofninn hefur verið í lægð ráðlagði Hafrannsóknastofnun ekki aukningu á veiðum á honum. En þar sem stofnmatið hefur vaxið á síðustu missirum sem og að sjómönnum ber saman um umtalsverða aukningu á ufsa, var farið út í að auka ufsakvótann um 8 þúsund tonn. Auðvitað er það alltaf matsatriði hversu hratt á að byggja upp stofna og ekki einungis líffræðilegt mat sem liggur þar að baki. En líkt og ég hef sagt áður er sérstaða ufsans nokkur og því er réttlætanlegt að ganga gegn vilja sérfræðinga Hafrannsóknastofnunar að þessu sinni til að koma í veg fyrir brottkast og minnkandi botnfiskveiðar vegna meðafla.