Hækkun á leyfilegum heildarafla fiskveiðiárið 2002/2003

Mánudaginn 03. febrúar 2003, kl. 16:09:33 (3312)

2003-02-03 16:09:33# 128. lþ. 70.96 fundur 396#B hækkun á leyfilegum heildarafla fiskveiðiárið 2002/2003# (umræður utan dagskrár), ÁRÁ
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 128. lþ.

[16:09]

Árni R. Árnason:

Herra forseti. Ákvörðun um aflaheimildir er ávallt mikið álitamál og við höfum sannarlega þær ábendingar að vísindi hafrannsókna og fiskifræði eru ekki mjög nákvæm. Hefur oft verið bent á að nýjustu upplýsingar í þeim vísindum séu ávallt gamlar, enda starfað við sífelldar breytingar í hafinu sem gefur sífellt ný og breytileg skilyrði fyrir viðgang þeirra fiskstofna sem við nytjum.

Það er örugglega réttmætt að benda á að við höfum ekki alltaf nægilega vísindaleg rök fyrir ákvörðunum af þessu tagi, ekki heldur þó við tökum þær eingöngu einu sinni á ári eins og við gerðum um nokkurt árabil. Á þeim tíma, á þeim árum voru ávallt uppi ábendingar, klárar og sæmilega rökstuddar ábendingar t.d. sjómanna og vísindamanna utan Hafrannsóknastofnunar að ástæða væri til að endurskoða ákvörðun frá upphafi fiskveiðiárs. Staðreyndin er sú, herra forseti, að innan hvers heils árs verða miklar breytingar á ástandi og vaxtarhraða nytjastofna okkar. Þess vegna getur verið ástæða til og skipt máli að endurskoða ákvarðarnir um veiðiheimildir.

Sjómenn okkar öðlast gjarnan hraðar en hafrannsóknamenn vitneskju um fiskigöngur og um breytingar á lífsskilyrðum nytjastofnanna. Þó ekki væri nema þess vegna er ástæða til að hlustað sé grannt eftir reynslu þeirra. Mér þykir rétt að geta þess að hér er einmitt staddur sá sjútvrh. sem hefur mest leitað eftir því og meira en fyrirrennarar hans að draga fiskifræði sjómannsins eins og hún er kölluð inn í ákvarðanir áður en niðurstaða er fengin. Hann hefur unnið að því að reyna að skilgreina upplýsingar og vitneskju sjómanna og að hún komi fram með skipulegum hætti áður en ákvarðanir þarf að taka. Það er einfaldlega svo að hafrannsóknir okkar eru ekki svo gríðarlega umfangsmiklar að þær geti náð með tæmandi hætti yfir þá nytjastofna sem við stundum veiðar á.