Íslenskur ríkisborgararéttur

Mánudaginn 03. febrúar 2003, kl. 16:16:51 (3315)

2003-02-03 16:16:51# 128. lþ. 70.20 fundur 242. mál: #A íslenskur ríkisborgararéttur# (tvöfaldur ríkisborgararéttur) frv., Frsm. ÞKG
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 128. lþ.

[16:16]

Frsm. allshn. (Þorgerður K. Gunnarsdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. frá hv. allshn. um frv. til laga um breyting á lögum um íslenskan ríkisborgararétt. Ég vil benda hv. þingheimi og forseta á þskj. 867.

Við fengum Rögnu Árnadóttur frá dómsmrn. á okkar fund þar sem við fórum mjög vel yfir þetta mál. Ég vil geta þess að það var mikil samstaða í nefndinni um að fara vel í gegnum málið og kom í ljós að það var líka eindregin skoðun allra nefndarmanna að afgreiða málið sem fyrst enda um gott mál að ræða, að mínu mati.

Með frv. er lagt til að íslenskum ríkisborgurum verði heimilað að halda íslensku ríkisfangi þótt þeir öðlist ríkisborgararétt í öðru ríki. Hér er því lagt til að tvöfaldur ríkisborgararéttur verði heimilaður. Samkvæmt núgildandi lögum missir sá íslenskt ríkisfang sitt sem hlýtur erlent ríkisfang samkvæmt eigin umsókn eða skýlausu samþykki, eða með því að ganga í opinbera þjónustu í öðru ríki.

Ákvæði laganna um missi ríkisborgararéttar eru í samræmi við þau ríkisborgararéttarlög sem í gildi hafa verið á Norðurlöndunum frá því á fyrri hluta síðustu aldar. Ekki hefur farið fram sameiginleg norræn endurskoðun á lögunum, en ný ríkisborgararéttarlög tóku gildi í Svíþjóð 1. júní 2001. Helsta breyting þeirra er sú að Svíar heimila nú tvöfaldan ríkisborgararétt. Endurskoðun á lögunum er hafin í Noregi og Finnlandi en ekki í Danmörku.

Ástæður framangreindra breytinga eru þær helstar að íslensk stjórnvöld hafa orðið vör við óánægju íslenskra borgara með að missa íslenska borgararéttinn þegar þeir hafa fengið erlendan borgararétt. En það vill svo til, herra forseti, að til að njóta ákveðinna réttinda í sumum löndum, bæði í Evrópu og annars staðar, þurfa viðkomandi einstaklingar að hafa þarlendan ríkisborgararétt, ætli þeir að dvelja til lengri tíma í viðkomandi landi. Finnst því Íslendingum oft súrt í broti að missa íslenskan ríkisborgararétt sinn sem oft á tíðum er þeim mjög kær.

Einnig má benda á að þegar erlendir ríkisborgarar hafa fengið íslenskan ríkisborgararétt höfum við Íslendingar ekki gengið mjög hart eftir því að þeir hinir sömu afsali sér hinum fyrri ríkisborgararétti þannig að í raun hafa margir þennan tvöfalda ríkisborgararétt.

Þess ber að geta að eitt meginsjónarmiðið við að heimila ekki tvöfaldan ríkisborgararétt er að koma í veg fyrir að maður geti haft herskyldu í tveimur ríkjum. Slíkt á hins vegar ekki við hér á landi.

Við í nefndinni leggjum til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.