Námsstyrkir

Mánudaginn 03. febrúar 2003, kl. 16:34:14 (3318)

2003-02-03 16:34:14# 128. lþ. 70.22 fundur 446. mál: #A námsstyrkir# (heildarlög) frv., menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 128. lþ.

[16:34]

Menntamálaráðherra (Tómas Ingi Olrich) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. síðasta ræðumanni, Einari Má Sigurðarsyni, fyrir að hafa tekið vel undir þetta mál. Ég held að athugasemdir hans kalli ekki á mikil viðbrögð af minni hálfu. Það er rétt hjá honum að 30 km reglan er staðfest með þessu frv. Það reyndist hins vegar vera talsverður ósveigjanleiki í því hvernig farið var með þá reglu og ljóst jafnvel að það verður að setja einhver mörk þó að þau séu alltaf umdeilanleg. Sú leið hefur verið farin í þessu frv. að staðfesta mörkin við 30 km en búa jafnframt til sveigjanleika til að taka tillit til aðstæðna. Aðstæður voru jú þannig að framhaldsskólanemendur sem bjuggu í sama héraði og fóru sama fjallveg til skóla fengu mismunandi fyrirgreiðslu og verður að teljast að það hafi mismunað nemendum á þann hátt sem ekki er hægt að sætta sig við. Gerð er tilraun til þess að koma til móts við þá vankanta og ég held að þeir séu sniðnir af með þessu. Það fer a.m.k. ekki á milli mála hver tilgangurinn er hér, og þar sem skýringar þær sem hér eru settar fram eru hluti af lögskýringargögnum er alveg ljóst í mínum huga að það er gert hér til þess að koma í veg fyrir slíkan ósveigjanleika.

Ég ætla aðeins að geta þess einnig að það er sjálfsagt að hv. menntmn. skoði sérstaklega þetta með skólaakstursstyrkina. Ég tel að hún geti gert það með þeim hætti að færa hugsanlega til betri vegar, ef svo er. Það er einnig rétt að með þessu frv. er verið að sníða af vankanta sem hafa verið á málinu, en ekki er verið að tala um útgjaldarammann í heild.