Námsstyrkir

Mánudaginn 03. febrúar 2003, kl. 17:00:31 (3321)

2003-02-03 17:00:31# 128. lþ. 70.22 fundur 446. mál: #A námsstyrkir# (heildarlög) frv., KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 128. lþ.

[17:00]

Kristján L. Möller (andsvar):

Herra forseti. Fyrir það fyrsta, til þess að það valdi ekki neinum misskilningi, er ég auðvitað sammála því að frestir til umsókna eigi að vera ákaflega skýrir. Eins og mér hefur hins vegar borist þetta til eyrna er þetta svona á meðan kerfið er að festa sig í sessi frá þeirri aðferð sem notuð var áður. Og ef einhverjir námsmenn litu svo á að umsókn þeirra, t.d. frá í fyrra, stæði inni er það svoleiðis. Það var kannski of mikil matreiðsla á því áður fyrr þegar, eins og ég sagði áður, kennarar komu með umsóknareyðublöð og dreifðu í allan bekkinn og passað var upp á að allir væru búnir að sækja um --- það var gert á fimm mínútum --- kennarinn tók svo blöðin og skólinn sendi. Þetta var ákaflega gott en auðvitað eigum við að færa okkur inn í nútímann og gera þetta eins og gert er í dag. En ég óttast að það séu nokkur atriði, ég veit ekki hve mörg, sem hafa orðið út undan núna vegna þess að þarna hefur misskilningur verið á ferð.

Hitt atriðið varðar hugtakið námsstyrki. Eins og hæstv. ráðherra sagði réttilega er honum það ekki fast í hendi, þ.e. honum finnst það ekki mikið mál en telur það samt ekki skipta sköpum. Ég er enn þá á þeirri skoðun að ,,jöfnun á námskostnaði`` væri miklu betra að nota í þessum efnum en það sem þarna er. Ég hef heyrt unglinga sem fá þetta framlag til jöfnunar á námskostnaði tala um að þeir hafi jafnvel orðið fyrir alls konar athugasemdum, skulum við orða það, fyrir að fá námsstyrki þegar þeir eru greiddir út, sennilega um þessar mundir, frá þeim sem ekki njóta framlags. Þetta er kannski atriði sem skiptir litlu máli. Engu að síður held ég að rétt sé fyrir hv. menntmn. að hugleiða þetta, ég tala nú ekki um þegar það kemur fram að þetta er hæstv. menntmrh. ekki mjög fast í hendi. Það er rétt sem ráðherra sagði, hér áður fyrr litu menn ekki niður á það sem heitir styrkur en ég hygg að ýmislegt sé að breytast í þjóðfélaginu hvað þetta varðar.