Námsstyrkir

Mánudaginn 03. febrúar 2003, kl. 17:02:47 (3322)

2003-02-03 17:02:47# 128. lþ. 70.22 fundur 446. mál: #A námsstyrkir# (heildarlög) frv., menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 128. lþ.

[17:02]

Menntamálaráðherra (Tómas Ingi Olrich) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að þarna hafi eitthvað skolast til í meðförum því að ég taldi einmitt að hugsanlega hefði mönnum áður fyrr ekki þótt í lagi að þiggja styrki. Ég held hins vegar að það sjónarmið sé að breytast núna. Ég held að menn líti ekki lengur á styrki sem einhvers konar náðarframkvæmd, tek það hins vegar fram að ég tel sjálfsagt að menntmn. skoði þessa hluti, mér er ekkert fast í hendi með það.

Þau atriði sem hér hafa komið til umræðu eru raunar öll þess efnis að mér finnst sjálfsagt að nefndin taki þau til umfjöllunar, þar á meðal þetta atriði um frestina. Það er ekkert því til fyrirstöðu að það sé skoðað. Ég legg bara áherslu á að ég held að það sé öllum til góðs að festa ríki um afgreiðslu þessara mála. Það svigrúm sem verið er að skapa með þessu lagafrv. er fyrst og fremst nauðsynlegt í ljósi reynslu af fyrri reglum um þetta mál.

Að þessu loknu þakka ég fyrir umræður um málið, mér sýnist á öllu að það njóti skilnings og stuðnings og fyrir það vil ég þakka.