Samkeppnislög

Mánudaginn 03. febrúar 2003, kl. 17:13:24 (3325)

2003-02-03 17:13:24# 128. lþ. 70.24 fundur 547. mál: #A samkeppnislög# (ábyrgðarlýsingar, EES-reglur) frv., viðskrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 128. lþ.

[17:13]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á samkeppnislögum, nr. 8/1993, sem er á þskj. 894 og er 547. mál þingsins.

Frv. þetta er fylgifrv. frv. til laga um neytendakaup sem lagt er fram samhliða. Markmið frv. er að koma til framkvæmda hér á landi tilskipun Evrópusambandsins 1999/44/EB frá 25. maí 1999, um tiltekna þætti í sölu neysluvara og ábyrgð þar að lútandi.

Tilskipunin er tvíþætt. Í 2.--5. gr. hennar felast reglur um rétt neytanda gagnvart seljanda þegar vara er haldin göllum, og eru þær reglur teknar upp í frv. til laga um neytendakaup. Í 6. gr. tilskipunarinnar er að finna ákvæði sem varða efni ábyrgðaryfirlýsinga sem algengt er að seljendur vöru og þjónustu leggi fram í tengslum við kaup, og er frv. þessu ætlað að koma þeim ákvæðum til framkvæmda.

Það er talið eðlilegast að ákvæðum um ábyrgðir verði skipað í VI. kafla samkeppnislaga um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum en annars staðar á Norðurlöndunum hafa ákvæði umræddrar tilskipunar verið innleidd í lögum um eftirlit með markaðssetningu og samningsskilmálum sem hafa að geyma ákvæði um óréttmæta viðskiptahætti og eftirlit með þeim.

Hérlendis hafa fram til þessa ekki verið lögfestar ítarlegar reglur um ábyrgðir sem veita eiga neytendum betri rétt en þeir mundu njóta samkvæmt lögum ef engin slík ábyrgð hefði verið gefin. Nú er hins vegar nauðsynlegt, á grundvelli umræddrar tilskipunar, að lögfesta ítarlegri ákvæði um þetta efni.

Lagt er til í 1. gr. frv. að nýrri málsgrein verði bætt við 24. gr. samkeppnislaga en þar er nú kveðið á um að ábyrgðaryfirlýsingu megi aðeins gefa ef hún veitir viðtakanda meiri rétt en hann hefur samkvæmt gildandi lögum. Í nýrri málsgrein er lagt til að kveðið verði á um að ábyrgðaryfirlýsing sé lagalega bindandi fyrir ábyrgðaraðila á grundvelli þeirra skilyrða sem fram koma í ábyrgðarskilmálum og auglýsingum hans.

Í 2. gr. frv. er lagt til að við samkeppnislög verði bætt nýrri grein, 24. gr. a, þar sem fram koma í fyrsta lagi reglur um það hvaða upplýsingar skuli koma fram í ábyrgðarskilmálum, í öðru lagi er kveðið á um það að ábyrgðaraðili skuli afhenda skilmála ábyrgðaryfirlýsingarinnar ef neytandi óskar þess, og í þriðja lagi kemur fram í ákvæðinu að skilmálar ábyrgðaryfirlýsinga sem veittar eru skriflega skuli vera á íslensku.

Í 3. gr. frv. er gildistökuákvæði og er miðað við sama gildistökudag og í frv. til laga um neytendakaup.

Hæstv. forseti. Ég tel ekki ástæðu til þess að fjalla nánar um einstök atriði þessa frv. en legg til að málinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.