Afgreiðsla forsætisnefndar á beiðni um skýrslu

Þriðjudaginn 04. febrúar 2003, kl. 13:35:40 (3332)

2003-02-04 13:35:40# 128. lþ. 71.91 fundur 397#B afgreiðsla forsætisnefndar á beiðni um skýrslu# (aths. um störf þingsins), samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 128. lþ.

[13:35]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Ég verð að viðurkenna það að ég undrast mjög þær árásir sem forseti Alþingis situr hér undir frá einum af varaforsetum þingsins, varaforseta sem er trúað fyrir því að vinna í forsn. og með forseta þingsins af heilindum. Þess vegna hlýtur að vekja alveg sérstaka athygli sú framganga sem hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson hefur viðhaft hér og hv. þm. Össur Skarphéðinsson fylgir nú í kjölfar.

Það liggur fyrir niðurstaða forseta Alþingis sem snýr að þeirri kröfu að lögð verði fram skýrsla Ríkisendurskoðunar varðandi uppgjör við fyrrverandi forstjóra Símans. Það liggur fyrir að það er ekki á valdi forseta þingsins að leggja fram slíka skýrslu. Þetta er hlutafélag og það er margbúið að ítreka það að við getum ekki gert ráð fyrir því að kalla eftir endurskoðunarskýrslum hlutafélaga í þessu tilviki. Þess vegna vil ég hvetja hv. þingmenn til þess að sýna forseta Alþingis þá virðingu sem hann á sannarlega skilið.