Afgreiðsla forsætisnefndar á beiðni um skýrslu

Þriðjudaginn 04. febrúar 2003, kl. 13:43:11 (3337)

2003-02-04 13:43:11# 128. lþ. 71.91 fundur 397#B afgreiðsla forsætisnefndar á beiðni um skýrslu# (aths. um störf þingsins), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 128. lþ.

[13:43]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Það er gott að helsta kosningamál Samfylkingarinnar er fram komið. Maður velti því lengi fyrir sér hvað yrði kosningamál hennar. En að því slepptu þá er með miklum ólíkindum að fylgjast hér með þessu upphlaupi og þeim árásum sem menn gera hér á forseta þingsins. Ég leyfi mér að fullyrða að þetta gæti ekki gerst í nokkru öðru þingi veraldarinnar, að menn mundu ráðast með þessum hætti --- og nú skríkir í einhverjum hv. þm. hér --- að menn mundu ráðast með þessum hætti að forseta þings. Það mun hvergi gerast, a.m.k. ekki í hinum vestræna heimi.

Hví gefa þingmenn sér ekki það að forseti þingsins er að kveða upp málefnalegan úrskurð? Það veit enginn hvort hann hefur þá skoðun að menn eigi að birta þessa skýrslu eða ekki. Hann hefur ekkert tjáð sig um það. Það er tilefni árásarinnar sem að honum er gerð. Hann er að fara málefnalega yfir málið með þeim rökum sem eru til staðar hver sé réttur og skylda hans í málinu, ekki hver er skoðun hans á málinu. En þessi niðurstaða er síðan notuð til árása á forseta þingsins með því yfirbragði --- ég vil nú ekki nefna það hér hvers konar yfirbragð er á því --- með því yfirbragði sem a.m.k. er hægt að segja að er ekki nokkrum einasta manni sem að því stóðu til sóma og fer því fjarri.