Afgreiðsla forsætisnefndar á beiðni um skýrslu

Þriðjudaginn 04. febrúar 2003, kl. 13:51:35 (3342)

2003-02-04 13:51:35# 128. lþ. 71.93 fundur 399#B afgreiðsla forsætisnefndar á beiðni um skýrslu# (um fundarstjórn), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 128. lþ.

[13:51]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Ég hafði fyrir allnokkru gefið forseta merki þess efnis að ég vildi ræða störf þingsins og gerði það á undan nokkrum síðustu ræðumönnum. Hann kaus hins vegar að taka þá fram fyrir í röðinni og er svo sem ekkert við það að athuga. Ég vildi þess vegna láta það koma hér mjög skýrt og ákveðið fram, herra forseti, til þess að menn hafi ekki endaskipti á efni þeirrar umræðu sem átti sér stað og að hún lyti að persónu forseta Alþingis, Halldórs Blöndals. (Forseti hringir.) Hér er alls ekki um það að ræða.

(Forseti (HBl): Ég vil benda hv. þingmanni á að fundarstjórn forseta er til umræðu og ég óska eftir því að hv. þingmaður haldi sig við það.)

Já, ég var að gera við það athugasemdir að ég hefði ekki átt þess kost að ræða málið undir liðnum störf þingsins heldur hefði forseti gripið til þess ráðs að taka aðra hv. ræðumenn fram fyrir.

(Forseti (HBl): Ég vil biðja hv. þingmann að gæta að þingsköpum.)

Já, það er nákvæmlega það sem undirritaður er að gera. Ég kann því mjög illa að sett sé ofan í við mig í þessum efnum þegar ég er hér að fara að þingsköpum. Og ég vildi hafa sagt það, herra forseti, að sú umræða (Forseti hringir.) sem hér hefur átt sér stað lýtur ekki að árásum á einn eða neinn heldur að málefnalegum rökum um það grundvallaratriði hvort þingmenn geti sinnt stjórnarskrárbundnum skyldum sínum og rétti sínum. Það er kjarni þessa máls. Það veit hæstv. forseti og (Forseti hringir.) það ættu líka hæstv. ráðherrar þessarar ríkisstjórnar að skilja.

(Forseti (HBl): Ég vil biðja hv. þingmann að halda sig við það umræðuefni sem hann kvaddi sér hljóðs um.)