Samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006

Þriðjudaginn 04. febrúar 2003, kl. 14:27:58 (3347)

2003-02-04 14:27:58# 128. lþ. 71.8 fundur 563. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006# þál., 469. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014# þál., ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 128. lþ.

[14:27]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessi svör. Ég vil minna á að það er hægt að flýta fleiri framkvæmdum hér á höfuðborgarsvæðinu. Atvinnuleysið er einna mest hér á suðvesturhorninu. Ég minni á að það er t.d. hægt að flýta því að koma upp göngubrúm í Reykjavík og á höfuðborgarsvæðinu. Ég minni líka á að Hallsvegur ætti að vera fljótlega tilbúinn til framkvæmda enda genginn dómur í því máli. Sömuleiðis mætti hefjast handa við gatnamótin á Suðurlandsvegi og Vesturlandsvegi sem mig minnir að hafi verið frestað í fyrra.

Ég hvet hæstv. ráðherra til að flýta þessum framkvæmdum eins mikið og hann getur því að atvinnuástandið er ekki viðunandi. Ef hægt er að koma með aðgerðir til mótvægis við aukið atvinnuleysi á auðvitað að gera það. Ég treysti hæstv. ráðherra til þess að drífa í að koma þessum framkvæmdum af stað sem fyrst.