Samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006

Þriðjudaginn 04. febrúar 2003, kl. 14:29:05 (3348)

2003-02-04 14:29:05# 128. lþ. 71.8 fundur 563. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006# þál., 469. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014# þál., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 128. lþ.

[14:29]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er vafalaust hægt að setja af stað eitthvað af þeim framkvæmdum sem hv. þm. nefndi. Ég vil þó sérstaklega nefna framkvæmdir við Hallsveg. Það hefur gengið á ýmsu þar og endaði í dómsmáli eins og kom fram hjá hv. þm. Þar er að sjálfsögðu skipulagsvinna, hönnun, frágangur og mikill undirbúningur eftir. Það er kannski ekki alveg séð að á næstu vikum sé hægt að setja af stað verk sem er að koma út úr kæruferli, dómsferli. Augljóslega var undirbúningur og öll hönnun þeirra framkvæmda ekki í fullum gangi á meðan á þeirri óvissu stóð.

Hvað varðar göngubrýr er að sjálfsögðu reynt að hraða þeim eins og kostur er. Það er ekki mjög stór verkefni. En engu að síður, margt smátt gerir eitt stórt. Fyrirmæli mín til Vegagerðarinnar, Siglingastofnunar og Flugmálastjórnar eru að hraða framkvæmdum, hraða undirbúningi og setja sem mest af stað af verkum sem liggur fyrir að við höfum fjármuni til í ár.