Samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006

Þriðjudaginn 04. febrúar 2003, kl. 15:02:08 (3357)

2003-02-04 15:02:08# 128. lþ. 71.8 fundur 563. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006# þál., 469. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014# þál., KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 128. lþ.

[15:02]

Kristján L. Möller (andsvar):

Herra forseti. Rétt í lokin um hafnalagafrv. Þó það sé ekki á dagskrá blandast það þó inn í þá samgönguáætlun sem ég gat um áðan vegna þess að strax á öðru tímabili, að mig minnir, er gert ráð fyrir miklu minni fjárframlögum frá ríkissjóði vegna uppbyggingu hafna.

Það er alveg rétt, og mér er kunnugt um þá kröfu samkeppnisyfirvalda, að hin samræmda gjaldskrá hafna verður aflögð. Ég er hins vegar ekki sammála því og það voru mjög margir á hafnasambandsþingi sem hér var haldið fyrir einu ári síðan eða svo þar sem var verið að ræða um ... (Samgrh.: Hafnasambandsþingið sjálft fagnaði niðurstöðunni og fagnaði hafnalagafrv.) (Gripið fram í: Nei, nei.) Ég held að við séum örugglega að tala um sama hafnasambandsþingið sem samgöngunefndarmenn margir sátu. Ég varð þess hins vegar áskynja að töluverður munur var eins og svo oft áður milli höfuðborgarmanna og landsbyggðarmanna. Mér er vel kunnugt um að hafnirnar í Reykjavík, í Hafnarfirði og á Grundartanga standa mjög vel. En það kom líka fram á þessum hafnasambandsfundi varðandi t.d. Ísafjörð að ef þær breytingar yrðu gerðar sem boðaðar voru í þessu frv. --- nú ætla ég ekki að fara nákvæmlega með árin, en fulltrúar Ísafjarðar lýstu því nákvæmlega að þegar fjárframlögin frá ríkinu falla niður og hafnirnar fá í staðinn hærri skatta af aflagjaldi þá nefndu þeir að það tæki nokkra tugi, tvo eða þrjá tugi ára að fá fyrir þeirri viðgerð sem væntanleg var á þeirri bryggju sem tiltekin var og að mig minnir --- ég skal hafa þetta bara á hreinu seinna í umræðunni og fara í gegnum þetta.

Herra forseti. Það er ekki þörf á því að fara í þær róttæku breytingar sem ráðherra er að boða í hafnalagafrv. og kemur fram í þessari áætlun enda veit ég til þess að mikill ágreiningur er innan stjórnarflokkanna um þetta mál. Ég vona að sá ágreiningur verði áfram til staðar þannig að við fáum þetta frv. alls ekki fram. Eitt er að breyta samræmdri gjaldskrá. Annað er að gera algera byltingu á málefnum hafnanna og því er ég á móti.