Samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006

Þriðjudaginn 04. febrúar 2003, kl. 15:25:30 (3361)

2003-02-04 15:25:30# 128. lþ. 71.8 fundur 563. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006# þál., 469. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014# þál., HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 128. lþ.

[15:25]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það skipti engu máli fyrir efnahagsstefnu þeirra hvort Vinstri grænir stingi höfðinu í sandinn eða steininn (Gripið fram í: Nema hvort tveggja sé.) nema hvort tveggja sé.

Ég ítreka það sem ég vitnaði til áðan, þ.e. ummæla hagfræðings og framkvæmdastjóra ASÍ um að menn geti ekki metið efnahagsáhrif og þensluáhrif af framkvæmdum fyrir austan fyrr en á reynir. Þær eru ekki hafnar.

En ég ítreka meginspurningu mína til hv. þm. sem hann vék sér fimlega undan að svara. Hann talar um að hraða verulega framkvæmdum í einu til tveimur kjördæmum og færa nokkra milljarða króna úr öðrum kjördæmum þangað. Ég ítreka þess vegna spurninguna til hv. þm.: Úr hvaða kjördæmum vill hv. þm. að þessir fjármunir séu teknir?

Þörfin er alls staðar. Hún er í öllum kjördæmum og menn eru hér að reyna að deila milli þeirra fé til samgöngumála eftir ákveðnum rökum. En úr hvaða kjördæmum treystir hv. þm. sér til að færa nokkra milljarða króna? Hvernig framkvæmdir eiga þá að bíða? Ég bið hv. þm. um að svara því í seinna andsvari sínu.