Samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006

Þriðjudaginn 04. febrúar 2003, kl. 15:31:00 (3364)

2003-02-04 15:31:00# 128. lþ. 71.8 fundur 563. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006# þál., 469. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014# þál., JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 128. lþ.

[15:31]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Það er svo sem alveg hárrétt hjá hv. þingmanni hvað það varðar að ýmis innflutningsgjöld á bílum hafa verið lækkuð. (KÓ: Samkeppnin minnkað.) Hefði þeim verið haldið eins háum og áður var hefði það bara þýtt enn þá meiri skattheimtu ríkisins af þessum flutningstækjum.

Staðreyndin er samt sú að tekjur ríkisins af bifreiðum og bifreiðanotkun hafa vaxið og jafnframt hefur hækkað sá hluti sem ekki fer til vegamála og samgöngubóta heldur beint inn í ríkisreksturinn þó að hann hefði getað hækkað meira ef öllum tollum hefði verið haldið áfram sem hv. þm. nefndi.

Þá er og vert að geta þess að vöruflutningar með bifreiðum hafa aukist og flutningskostnaðurinn hefur líka aukist á einingu á þessum vörum milli landshlutanna. Lokaþáttur í verðlagningu á flutningi er virðisaukaskatturinn sem kemur á síðasta stig þannig að þegar flutningskostnaðurinn eykst þýðir það hærri grunn fyrir álagningu virðisaukaskattsins sem fer í ríkissjóð. Margfeldið í flutningskostnaðinum skilar sér þannig í kassann með hærri skattlagningu. Svo einfalt er það nú.

Ég tel að það sé afar brýnt að taka á öllum þáttum varðandi flutningskostnaðinn, bæði skattlagningunni, hvers vegna flutningskostnaðurinn út á land hefur aukist, og einnig hvort það sé þá einhver leið fyrir ríkið til þess að koma inn í og niðurgreiða, styrkja eða beita sér fyrir jöfnunaraðgerðum á flutningskostnaði milli landshluta. Það er eitt brýnasta hagsmunamálið fyrir atvinnulíf og búsetu í landinu.