Samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006

Þriðjudaginn 04. febrúar 2003, kl. 15:50:27 (3367)

2003-02-04 15:50:27# 128. lþ. 71.8 fundur 563. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006# þál., 469. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014# þál., HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 128. lþ.

[15:50]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Herra forseti. Segja má hvað varðar Suðurstrandarveginn að það sé hálfur sigur að ná honum inn á samgönguáætlun með öllum þeim rökum sem hafa verið nefnd um hann og hvers vegna hann er mikilvægur. En samkvæmt 12 ára áætlun, lengri áætluninni, er ekki einu sinni gert ráð fyrir að Suðurstrandarvegi ljúki á því tímabili. Hann mun kosta um 1 milljarð og ef ég man rétt er ekki gert ráð fyrir nema um 500--600 millj. í Suðurstrandarveginn á 12 ára tímabili.

Ég ítreka það sem ég nefndi að ég lít svo á að í tengslum við kjördæmabreytinguna hafi komið afdráttarlausar yfirlýsingar þess efnis að hann væri ein forsenda breytinganna, enda hygg ég að allir þingmenn Reykjaneskjördæmis núverandi og Suðulandskjördæmis hafi tekið undir það og reiknað með því. Þess vegna eru það auðvitað ákveðin vonbrigði þegar þau loforð ganga ekki eftir.

Hvað varðar Vestmannaeyjar þá er það hárrétt hjá hæstv. ráðherra og ber auðvitað að lofa það sem vel er gert, þ.e. fjölgun ferða, en það breytir ekki því að grundvallaratriðið er með hliðsjón af þróun atvinnulífs og þróun mannlífs í Vestmannaeyjum að grípa þarf til aðgerða strax.

Ég hef nefnt þriggja tíma siglingu sem samræmist í rauninni ekki samgöngum 21. aldar og þarf ekki annað en skoða hvernig því er fyrirkomið í nágrannaríkjum okkar. Rannsóknir við Bakkafjöru og sigling stystu leið --- það er hárrétt hjá hæstv. ráðherra, það er besta lausnin. En sú lausn er ekki innan seilingar. Þess vegna verður í rauninni að svara því strax hvort menn vilji grípa til aðgerða til að koma Vestmannaeyjum í nútímasamband strax, eða að draga það um jafnvel áratugi eins og ég hygg að bæði jarðgöng og ferjuaðstaða frá Bakkafjöru muni taka.