Samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006

Þriðjudaginn 04. febrúar 2003, kl. 16:13:41 (3372)

2003-02-04 16:13:41# 128. lþ. 71.8 fundur 563. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006# þál., 469. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014# þál., HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 128. lþ.

[16:13]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég er vanur því að sagt sé við mig að ég vilji leggja vegi sem fjærst byggð. Þannig var, þegar gengið var frá samgönguáætlun og hún samþykkt í fjárln. árið 1991, að þá var ekki gert ráð fyrir því að byrja að leggja veg milli Mývatnssveitar og Egilsstaða fyrr en eftir árið 2000, ekki fyrr en á þessari öld. Ég hafði nú ekki þá þolinmæði og beitti mér fyrir því að vegur yrði lagður á milli Norður- og Austurlands. Þá vildu ýmsir leggja þann veg um byggð, vildu fara Kelduhverfið og Melrakkasléttuna og Þistilfjörðinn og Vopnafjörðinn til Egilsstaða. Ég vildi fara stystu leið. Ég hef engan mann hitt eftir að þessi vegur var lagður sem hefur sagt við mig: Mikill bjáni varstu að fara ekki heldur yfir Öxarfjarðarheiðina og Brekknaheiðina og Sandvíkurheiðina o.s.frv. Þær gagnrýnisraddir hafa nú hljóðnað sem á sínum tíma börðust mest fyrir því að fara með ströndinni eins og sagt var.

Ég er hér einungis að tala um að stytta leiðina milli Akureyrar og Reykjavíkur um 81 km. Það er auðvitað geysilega þýðingarmikið mál, þjóðhagslega mikilvægt mál. Ég er að tala um að draga úr slysahættu. Hv. þm. veit vel að eins og hringvegurinn er núna þá er mikil slysahætta og ef maður les þessa vegáætlun þá sér maður að hægt gengur að fá peninga til þess að bæta gamla þjóðveginn. Ég hef meira að segja heyrt að ýmsir þingmenn á Norðvesturlandi vilji enn draga veginn upp Norðurárdal í Skagafirði sem ég vona nú að sé ekki satt.

Þannig er nú það að vegir verða að vera öruggir og góðir og fjalllendi er það mikið á Íslandi að maður verður að fara yfir fjöllin og heiðarnar, meira að segja stundum yfir Holtavörðuheiði.