Samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006

Þriðjudaginn 04. febrúar 2003, kl. 16:43:27 (3381)

2003-02-04 16:43:27# 128. lþ. 71.8 fundur 563. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006# þál., 469. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014# þál., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 128. lþ.

[16:43]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar ég sagði að Suðurland hefði setið talsvert eftir átti ég við að stofnvegir á Suðurlandi eru um það bil 15% af heildarstofnvegum á landinu. Tengivegir á Suðurlandi eru u.þ.b. 26% af öllu landinu. Þetta liggur fyrir. Það er mikið verk óunnin í Suðurlandskjördæmi og jafnvel þó að segja megi að víða séu ágætar samgöngur á Suðurlandi eru mikil verk óunnin þar.

Það sem ég var að benda á í þessu samhengi er að það eru einungis ætluð 7,2% af heildarútgjöldum, þ.e. frá árinu 2003 til ársins 2014, til þessa kjördæmis. Á það var ég að benda og út frá þessum tölum er einnig bersýnilegt að ekkert fé á að veita til samgangna við Vestmannaeyjar. Þess vegna stend ég fullkomlega við að þegar þetta er skoðað í þessu ljósi sé hlutur Suðurlands ekki nægilega góður.

Þegar þetta er skoðað í enn stærra samhengi, þ.e. með tilliti til þeirra loforða sem gefin hafa verið um Suðurstrandarveg, m.a. sem hæstv. samgrh. gaf 11. maí árið 2000 um að á næstu 2--3 árum yrðu settar, til viðbótar við það fjármagn sem nú þegar hefur verið sett í Suðurstrandarveg af því sem veitt hefur verið til Suðurlandskjördæmis, 400 millj. sem ættu að tryggja að Suðurstrandarvegi, þ.e. milli Þorlákshafnar og Grindavíkur, yrði lokið innan 2--3 ára. Undir það tók á þeim tíma þáv. formaður samgn.