Samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006

Þriðjudaginn 04. febrúar 2003, kl. 16:45:40 (3382)

2003-02-04 16:45:40# 128. lþ. 71.8 fundur 563. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006# þál., 469. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014# þál., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 128. lþ.

[16:45]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að hvergi hafi komið fram hjá mér að árið 2000 hafi ég gefið yfirlýsingu um það að Suðurstrandarvegi yrði lokið innan 2--3 ára. Ég kannast ekki við slíkar yfirlýsingar, það er alveg af og frá. Hins vegar er það þannig að við stjórnmálamenn þurfum að velja og hafna. Við höfum ákveðinn ramma til þess að vinna út frá og í ljósi þess að við erum að leggja í miklar framkvæmdir við tvöföldun Reykjanesbrautar og ýmsar aðrar mikilvægar framkvæmdir var það kalt mat okkar að það væri mikilvægara fyrir samgöngur á þessu svæði, þ.e. á suðurhorninu, að ljúka tvöföldun Reykjanesbrautarinnar fremur en fara samhliða í Suðurstrandarveg eins og fyrri áætlanir stóðu til. Ég get vel viðurkennt að sú tillaga var gerð í mínu nafni að fara af stað með Suðurstrandarveginn en kostnaðurinn við Reykjanesbrautina hefur orðið það mikill með hönnun, umhverfismatskröfunum, mislægum gatnamótum á leiðinni o.s.frv. að við urðum að velja þá leið sem við förum hér, að fresta Suðurstrandarveginum í bili til þess að geta lokið Reykjanesbrautinni. Þetta er hinn kaldi veruleiki.

Aðeins varðandi grunnnetið. Kostnaður við vegi í grunnneti í Suðurkjördæmi er metinn 25,3% á meðan Norðvesturkjördæmið er með 42% af heildarkostnaðinum við grunnnetsuppbygginguna. Það sést vel hversu gríðarlega stór verkefnin eru í Norðvesturkjördæminu.

Aðeins varðandi Vestmannaeyjar, að ekki sé nein fjárveiting ætluð þangað. Ég minni á það sem stendur í samgönguáætluninni, að við gerum ráð fyrir fjármunum til þess að ljúka rannsóknum vegna Bakkafjöru og það er lykill að frekari ákvörðunum. Eftir tvö ár, þegar þessi áætlun verður endurskoðuð eins og lög gera ráð fyrir, hljótum við að hafa forsendur til þess að taka ákvarðanir um framvinduna hvað varðar sjóleiðina til Vestmannaeyja að loknum rannsóknum á Bakkafjörunni. Það er mín tillaga.