Samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006

Þriðjudaginn 04. febrúar 2003, kl. 17:14:59 (3389)

2003-02-04 17:14:59# 128. lþ. 71.8 fundur 563. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006# þál., 469. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014# þál., ÁRÁ
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 128. lþ.

[17:14]

Árni R. Árnason:

Herra forseti. Það er mikill kostur að líta yfir þarfir og tillögur um lausnir í samgöngumálum með þeim hætti sem nú er gert með sameinaðri samgönguáætlun. Hún gefur okkur a.m.k. grunn til þess að hafa einhverja yfirsýn yfir verkefnin, og að tillögurnar lúti að samhæfingu þeirra aðgerða sem stefnt er að. Það skiptir miklu máli, herra forseti, að við rifjum upp að áður framsett markmið um samgöngubætur með síðustu langtímaáætlun í vegagerð sem samþykkt var vorið 1998 fyrir árin 1999--2010 voru þess efnis að þau markmið sjálf og umfjöllun hv. Alþingis um þarfir og framtíðarlausnir vöktu meiri vonir en áður um umtalsverðar framfarir og bætt öryggi umferðar á þjóðvegum svo og styttingu helstu leiða milli stærri þéttbýlisstaða.

[17:15]

Þau markmið sem þá voru fram sett voru mótuð með nýjum hætti og virtust eiga að ná til allra landshluta þannig að um allt land gætti bjartsýni og þeirra væntinga sem íbúar og fyrirtæki mótuðu með sér á grunni þeirrar umræðu sem hér varð.

Undanfarin ár hefur einmitt gætt bjartsýni á hv. Alþingi um framgang þessara mála. Hún hefur verið forsenda væntinga fólks og fyrirtækja um allt land um meiri og aukinn hraða framkvæmda, aukinn hraða framfara.

Aðstaða okkar er í raun og veru sú að það munar umtalsverðu á áætlunum um tilkostnað við að leysa brýnar þarfir og þeim fjármunum sem við höfum til skipta. Það má kannski segja að þessar áætlanir hafi sjálfar og einar vakið mestar væntingarnar en ekki endilega það hve miklum eða takmörkuðum fjármunum við höfum úr að spila. Af þeim sökum stöndum við þingmenn sífellt frammi fyrir ítrekuðum óskum bæði sveitarfélaga, íbúa og fyrirtækja um aukinn hraða og auknar framfarir. Það verður að viðurkennast að flestar af þeim óskum eiga sér fullkomlega gild og góð rök.

Á allra síðustu árum hafa reglulega komið fram þau sjónarmið að vegna kjördæmabreytingar sem nú stendur fyrir dyrum sé sérstök ástæða til að veita sérstökum, tilgreindum verkefnum framgang. Um þetta verð ég þó að segja að ásamt kjördæmabreytingum nú verða engar breytingar á því hvert fólk eða fyrirtæki sækja vörur eða þjónustu. Það er munur á þeirri kjördæmabreytingu sem nú gengur í gildi og hinni sem varð 1959. Þá var gert ákveðið endurskipulag á opinberri þjónustu og með því breyttust þarfir bæði einstaklinga, fjölskyldna og fyrirtækja til að sækja a.m.k. opinbera þjónustu. Sú breyting hefur ekki orðið nú og er ekki fyrirhuguð.

Þá verður líka að geta þess að samgönguþarfir sem þá voru óleystar eru sumar hverjar enn þá óleystar. Ég verð að viðurkenna að ég hef aldrei getað fallist á rök fyrir því að flýta tilteknum framkvæmdum heldur hef ég alltaf talið að fyrir þeim væru önnur rök og þær forsendur hafi átt sér tilveru fyrr og eigi það enn. Ég segi sem svo, herra forseti, að ef brýnt er að ljúka tiltekinni vegagerð nú vegna kjördæmabreytingar þá hefði það átt að eiga við um vegabætur í öðrum landshlutum fyrr sem eru enn þá óleystar, 40 ára gamlar eða svo. En við stöndum aftur frammi fyrir því að þarfir fólks og fyrirtækja eru sífellt að breytast og ekki síst þarfir til ferða og flutninga sem eru sífellt að aukast.

Það sem hefur breyst mest á síðustu árum er að einn af okkar stærstu atvinnuvegum byggir sérstaklega á samgönguúrbótum. Ferðaþjónustan er orðinn einn af okkar mestu útflutningsatvinnuvegum eða gjaldeyristekjulindum. Það verður að segjast eins og er að þótt breytingar hafi orðið í öðrum atvinnugreinum og þær njóti flestar mikils hags af bættum samgöngum, þá verður ekki rakið eins mikið af tekjuauka eða möguleikum, tækifærum til aukinna tekna, til samgöngukerfisins og í ferðaþjónustu.

Í tillögum hæstv. samgrh. sem byggðar eru upp í ljósi heildarþarfa og með jafnvægi ólíkra lausna gagnvart þeim hefði mátt vænta að lengra hefði verið gengið í að flokka aðrar framkvæmdir eða mannvirki sem sýnast vera að ganga úr sér vegna framfara í vegakerfinu sjálfu, svo sem minni hafnir og minni flugvellir. Jafnvel hefði mátt gera ráð fyrir því að einhver tilflutningur yrði á fjármunum milli þessara samgöngutegunda en einnig er hugsanlegt að það eigi eftir að eiga sér stað í framtíðinni. Staðreyndin er sú að undanfarin ár hefur orðið gífurlegur tilflutningur á flutningum af sjó, úr höfnum og af flugvöllum yfir á vegakerfið. Ekki er hægt að segja að fjármunir hafi að öllu leyti flust í sama mæli til samgönguframkvæmda á milli þessara tegunda hafnarmannvirkja.

Í annan stað vil ég nefna þá miklu tilfærslu fjármuna sem enn er ráðgerð með flugáætlun frá þeim flugvöllum sem taka inn mestu tekjurnar, ég nefni þar sérstaklega Keflavíkurflugvöll sem skilar, eftir því sem ég best veit, mest þeirra fjármuna sem verið er að veita með flugáætlun eða til framkvæmda við flugsamgöngur í landinu. Ég vil þó taka fram að ég hef veitt því athygli að uppi eru hugmyndir um að lækka gjöld á Keflavíkurflugvelli. Ég vænti þess að hann muni þá eiga hægar um vik að standast samkeppni við aðra alþjóðlega flugvelli við norðanvert Atlantshaf. Sú samkeppni hefur alltaf verið fyrir hendi og mjög auðvelt að rekja hana þegar borin eru saman tilsvör fyrirtækja í þessari starfsemi um hvar þau vilji velja sér áfangastaði.

Að þessu sögðu vil ég nefna fáeinar tilteknar framkvæmdir sem mér þykja skipta máli vegna þess hvar ég starfa, vegna þeirra umbjóðenda sem ég starfa fyrir hér. Reykjanesbraut þjónar ekki einungis Suðurnesjum heldur öllum landsmönnum. Hún þjónar allri ferðaþjónustunni sem byggir á því að alþjóðlegir farþegar komist til og frá landinu, eigi öruggar og greiðar samgöngur við Ísland.

Við afgreiðslu vegáætlunar vorið 2000 komu fram sjónarmið sem vöktu mikla bjartsýni um framgang úrbóta á Reykjanesbrautinni sunnan Hafnarfjarðar. Hv. samgn. bókaði þá sérstaklega að hún gerði sér vonir um að þeim framkvæmdum gæti lokið árið 2006.

Það verður að segjast eins og er að Reykjanesbrautin er mjög sérstök í samanburði við þjóðvegi á landinu. Það hefur komið fram áður að byggingarlag vegarins er þannig að það veldur því að slys eða óhöpp á brautinni verða alvarlegri. Tjón eru meiri og slys á mönnum bæði fleiri og verri. Mikil næturumferð eykur á hættuna, næturumferð um Reykjanesbrautina eina er meiri en nokkurs staðar annars staðar á landinu, meira að segja meiri en er almennt innan bæjar á Íslandi.

En þá kem ég að því að samkvæmt tillögum hæstv. samgrh. virðist ráðgert að þessu verki verði ekki lokið fyrr en á tímabilinu 2011--2014, u.þ.b. sjö árum síðar en hv. samgn. ráðgerði fyrir fáeinum missirum. Þetta veldur miklum vonbrigðum. Ég hlýt að segja að ég vil skora á hæstv. samgrh. og hv. samgn. að leita allra leiða til að verða við því vilyrði sem þeim sem nota Reykjanesbraut var gefið fyrir skömmu. Með því voru vaktar svo miklar væntingar að það skiptir litlu þó að við fáeinir þingmenn höfum gert okkur enn þá meiri væntingar á þeim tíma sem síðan er liðinn. Ég tel miklu meira skipta álit nefnda þingsins sem hafa meira af gögnum, meiri upplýsingar til að vinna úr, en álit okkar einstakra þingmanna á einhverjum fundum úti í héraði.

Ég vil líka segja, vegna umræðu um Suðurstrandarveg, sem nokkrir hv. þm. hafa nefnt og ég hef raunar gert grein fyrir sjónarmiðum mínum til, að ég tel hann ekki skipta máli varðandi kjördæmabreytingu en hann kemur til með að skipta gríðarlega miklu máli fyrir ferðaþjónustuna á öllu sunnanverðu landinu. Hann mun skipta gríðarmiklu máli fyrir flutninga sjávarfangs milli hafna og hann mun skipta miklu máli ef grípa þarf til öryggisráðstafana vegna hugsanlegra jarðelda eða jarðhræringa á sunnanverðum Reykjanesskaga sem menn hafa lengi getað búist við. En þá verður líka að geta þess að menn hafa átt von á slíkum hræringum ekki aðeins á Reykjanesskaga heldur allt upp á Hellisheiði. Ljóst er að ef til slíks kemur mun Suðurstrandarvegurinn skipta meginmáli fyrir íbúa og fyrirtæki, björgunarmenn og mannvirki.

Fyrir fáeinum árum var samþykkt á hv. Alþingi áætlun um að veita til þessarar vegagerðar um 400 millj. kr. á tímabilinu 2000--2004, þ.e. á árinu sem nú er hafið og næsta ári. En samkvæmt tillögum hæstv. samgrh. er ráðgert að falla frá þeim samþykktum og veita ekki fé til þeirrar vegagerðar fyrr en eftir nokkur ár. Ef hægt er að lesa rétt í tillögurnar sýnist mér að gerð sé tillaga um að hefja þær ekki fyrr en árið 2010 og halda þeim ekki áfram fyrr en á tímabilinu 2011--2014. Ég verð að viðurkenna þó að ég hafi ekki tekið undir þá röksemd að þessi vegur væri brýn nauðsyn nú vegna kjördæmabreytingar þá finnst mér samt sem áður að með þessum tillögum sé verið að ganga þvert á vilja Alþingis. Rétt eins og ég sagði áðan um tillögurnar varðandi breikkun eða tvöföldun Reykjanesbrautar þá tel ég brýnt að hæstv. samgrh. og hv. samgn. leiti allra leiða til að bæta úr þessu efni.

Það skiptir mjög miklu að tengja bæði sjávarbyggðir og samgönguæðar um suðurströndina. Ég held að hugsanlega hafi tengst þessum vegi þær vonir manna að gera sæmilegan veg alla leið suður á Reykjanesskaga. En eins og sakir standa nú er Grindavík illa tengd við Reykjanestána þar sem er að myndast sæmilegt atvinnusvæði vegna orkuvinnslu og hugsanlega framtíðariðnaðar síðar meir. Þar er aðeins einn lélegur áratugagamall grjótvegur. Hinum megin frá er tengingin mjög góð og menn hafa gert sér vonir um að þær yrðu sambærilega góðar beggja megin frá og getur nú skipt nokkru máli í þessu efni að Grindvíkingar eru enn þá nær Reykjanestánni en fólk í Reykjanesbæ.

Þá vil ég víkja að þeim væntingum sem menn hafa gert hér að umtalsefni hvað varðar Hellisheiði, veginn þar um, og fleiri framkvæmdir sem varða Suðurkjördæmi. Ljóst er að Hellisheiðin hefur lengi verið mikilvæg samgönguæð, ekki aðeins fyrir Árnessýslu og Suðurland heldur líka fyrir allt höfuðborgarsvæðið sem á gríðarleg sumarbústaðalönd og mikil mannvirki á Suðurlandi sem íbúar á höfuðborgarsvæðinu heimsækja vikulega, jafnvel oft í viku. Sú samgönguæð þjónar ekki eingöngu íbúum á Suðurlandi. Hún þjónar líka gestum þeirra af höfuðborgarsvæðinu.

Mjög brýnt er að bæta bæði ferðatíma og öryggi umferðar um Hellisheiðina. Ljóst er að við verðum að hefja undirbúning að því að bæta við þriðju akreininni stærstan hluta leiðarinnar og ekki má sleppa því að ákveðið brot varð á þjónustu við þennan veg þegar fór að snjóa nú nýlega. Sem betur fer höfum við átt afskaplega létt haust en veturinn er kominn og þá virtist allt í einu skorta snjómokstur. Ég held að það skipti máli að menn átti sig á því, sem ég hygg raunar að vegagerðarmenn geri sér vel grein fyrir, að þetta er hæsti fjallvegur í námunda við stærsta þéttbýli á landinu og fjölmargir íbúar þess fara um þennan veg flesta daga ársins.

Nokkur önnur mál eru einnig mjög mikilvæg. Ég vil segja varðandi samgöngur til Vestmannaeyja, sem eru einsdæmi um þéttbýlisstaði á landinu, að sérstaða þeirra hefur ekki aðeins gert Vestmannaeyjar að mikilvægum útgerðarstað og þess vegna mikilvægum atvinnustað heldur líka að óvenjulegri náttúruperlu í mannlífinu, fyrir mannlífið sem nytjar auðlindir okkar. Koma ferðalanga til Vestmananeyja sýnir fram á sérstöðu þeirra og verðmæti. Ég hygg að þetta allt geri það að verkum að við verðum að sýna fram á það í áætlunum okkar og hugmyndum, tillögugerð og fjárveitingum, að Vestmannaeyingar og gestir þeirra fái innan ekki langs tíma sambærilegar framfarir í samgöngum, þ.e. í ferðatíma, öryggi og ferðatíðni, sem aðrir landsmenn eygja, sumir hafa nú þegar og aðrir sjá fram á á næstunni.

Ég vil geta þess að lokum, herra forseti, að mér finnst mikið um það sem kom fram áðan í umræðunni, að sl. þrjú ár hafa fjárveitingar til samgöngubóta og sérstaklega til vegagerðar verið þær mestu í sögunni. Það segir mér allt sem segja þarf um vilja þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr og hæstv. samgrh. Ég vil gjarnan styðja það starf áfram. Ég verð að viðurkenna að hann á oft erfitt um val. Ég get samt sem áður ekki vorkennt honum að það fylgi starfinu. ,,It goes with the territory,`` segja Bandaríkjamenn, nágrannar okkar í vestri. Ég held að í slíkum verkefnum fylgi alltaf nokkur böggull skammrifi. Ég vænti þess að hæstv. samgrh. komist vel frá þeim kostum sem hann stendur núna frammi fyrir og tek fram að ég mun fylgja honum við lausnir.