Samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006

Þriðjudaginn 04. febrúar 2003, kl. 17:47:50 (3391)

2003-02-04 17:47:50# 128. lþ. 71.8 fundur 563. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006# þál., 469. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014# þál., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 128. lþ.

[17:47]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er tvennt sem ég vildi gera að umtalsefni hér vegna ræðu hv. þm. Gísla S. Einarssonar, í fyrsta lagi þær ábendingar þingmannsins að uppbygging ljósleiðarakerfis í landinu ætti að vera hluti af samgönguáætlun. Nú er úr nokkuð vöndu að ráða vegna þess að þróunin hefur verið sú, sem betur fer, að uppbygging ljósleiðarakerfisins er ekki eingöngu á vegum Landssíma Íslands hf., sem er að mestu í eigu ríkisins, heldur eru fleiri símafyrirtæki að byggja upp kerfið, bæði á höfuðborgarsvæðinu og eins hefur fjarskiptafélagið Fjarski lagt ljósleiðara þvert yfir landið þannig að ég tel að það séu breyttir tímar. Lög á hinu Evrópska efnahagssvæði gera þá kröfu að það sé samkeppni á fjarskiptamarkaði og hver einasta þjóð í Evrópu færir sig út úr þessum rekstri þannig að ég teldi að það væri að fara aftan að hlutunum ef ríkið setti inn í sínar samgöngu- og framkvæmdaáætlanir uppbyggingu á fjarskiptakerfi og hlutaðist þannig til um framkvæmdir og rekstur félaga sem eru í eign annarra. Ég tel ekki færi til þess eins og hlutirnir eru.

Að hinu leytinu, það sem hv. þm. nefndi um kostnað við gjaldið í gegnum Hvalfjarðargöngin, er mér alveg ljóst að það hafa verið uppi óskir og jafnvel kröfur um að fella gjaldið niður. Það liggur þó fyrir að í gildi er samningur milli Spalar og ríkisins sem felur í sér það fyrirkomulag sem við þekkjum og samið var um á sínum tíma. Það er alveg ljóst að ef það á að breyta þeim samningi og gera breytingar á gjaldtökunni þarf að ganga til samninga sem mundu leiða til mikilla ríkisútgjalda sem þyrfti þá að taka af samgönguáætluninni. Eins og sakir standa tel ég að við höfum ekki fjármuni til þess og þess vegna hef ég ekki gert tillögu um það hér í þessari samgönguáætlun.