Samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006

Þriðjudaginn 04. febrúar 2003, kl. 18:06:38 (3394)

2003-02-04 18:06:38# 128. lþ. 71.8 fundur 563. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006# þál., 469. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014# þál., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 128. lþ.

[18:06]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. 4. þm. Suðurl., Kjartani Ólafssyni, fyrir gagnmerka ræðu og skilmerkilega í alla staði. Ég deili svo sannarlega með honum þeim viðhorfum sem hann lýsti, sérstaklega hvað varðar Suðurstrandarveg þar sem hann gerði grein fyrir því að þar er snúið við blaði og snúið við af leið, ef svo mætti segja, í raun hætt við það verk sem hafið var og því ávísað á framtíðina.

Ég tek einnig undir sjónarmið hans þegar hann sagði að ekki væri eðlilegt að stilla málum þannig upp að tvöföldun Reykjanesbrautar kæmi í stað uppbyggingar Suðurstrandarvegar. Um það hefur aldrei verið neitt samkomulag og ekki er hægt að halda málum fram með þeim hætti. Um þetta erum við hjartanlega sammála og ég hygg að við séum ekki einir um þessi viðhorf, langt í frá. Hugsanlega er meiri hluti þingmanna á þessari skoðun.

Mig langaði hins vegar til að spyrja hv. þingmann í þessu ljósi, af því að nú er nokkuð vel þekktur gangur stjórnarfrv. og þáltill. sem frá ríkisstjórninni koma, einstökum ráðherrum, hvort hann hafi gert við þetta sérstakan fyrirvara í þingflokki Sjálfstfl. og hvort hann sé þá einn um þann fyrirvara í þeim þingflokki. Maður hefur heyrt þessum viðhorfum lýst af fleirum en honum. Má þá vænta þess að hann leggist á sveifina með okkur, þingmönnum stjórnarandstæðinga, þegar við leggjum fram brtt. í þessa veru við áætlunina?

Það þýðir nefnilega ekkert að koma hingað og tala almennt um málin. Nú reynir á hinn pólitíska kjark og hvort þingmaðurinn sé maður orða sinna. Þess vegna spyr ég: Mun hann ganga fram veginn allt til enda?