Samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006

Þriðjudaginn 04. febrúar 2003, kl. 19:32:51 (3408)

2003-02-04 19:32:51# 128. lþ. 71.8 fundur 563. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006# þál., 469. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014# þál., MS
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 128. lþ.

[19:32]

Magnús Stefánsson:

Herra forseti. Hér eru til umræðu tillögur til þál. um samgönguáætlun, annars vegar fyrir árin 2003--2014 og hins vegar fjögurra ára áætlun næstu ára.

Hér er um tímamótaumræðu að ræða þar sem hér er í fyrsta skipti lögð fram tillaga um samræmda samgönguáætlun sem tekur yfir öll svið samgangna, þ.e. í lofti, á láði og legi. Því ber að fagna að nú skuli vera farið af stað með slíka vinnu, að vinna samræmda samgönguáætlun, og ég leyfi mér að fagna því að svo sé. Með þessu er verið að fylgja eftir ályktun sem Alþingi samþykkti fyrir nokkrum árum um samræmda samgönguáætlun en tillaga að þeirri ályktun var flutt af þeim sem hér stendur ásamt nokkrum öðrum hv. þm.

Ég leyfi mér að lýsa því, herra forseti, um leið og ég fagna því að þessi samræmda samgönguáætlun er hér komin til umræðu, að ég tel að þetta mál sé, eins og mörg önnur, ekki fullskapað í fyrstu atrennu. Ég lít því svo á að á komandi árum muni gerð samgönguáætlunar þróast eftir því sem tíminn líður og því oftar sem farið verður út í slíkt verkefni. Ég tel að í framtíðinni muni hv. Alþingi og samgrh. hvers tíma jafnvel útvíkka þessa áætlun þannig að hún taki til fleiri sviða en akkúrat þeirra sem við fjöllum um hér. Þá nefni ég sem dæmi fjarskiptamál og jafnvel ferðamál en það eru verkefni, ef til koma, seinni tíma og ég tel að í framtíðinni muni menn líta til þess að útvíkka áætlunina að þessu leyti.

Við fyrstu sýn, þegar flett er í gegnum áætlun næstu ára, sýnist mér að tillaga um áætlun í hafnamálum og flugmálum sé nokkuð í takt við það sem unnið hefur verið eftir á undanförnum árum. Hins vegar ber auðvitað að geta þess að í hafnaáætlun bætist nú við ný höfn í Reyðarfirði í tengslum við álver sem þar stendur til að byggja, og ríkissjóður mun koma að fjármögnun þess verkefnis að hluta til eins og gerist með aðrar hafnir.

En ég ætla, herra forseti, ekki mikið að ræða um hafnaáætlun og flugmálaáætlun heldur fyrst og fremst aðeins um vegamálakafla þessarar tillögu. Það er ljóst að eins og hún liggur fyrir er gert ráð fyrir mun meira fjármagni í þessari áætlun heldur en verið hefur til þessa, og því ber auðvitað að fagna. Það á við bæði um þéttbýlasta svæðið, hér á höfuðborgarsvæðinu, og á landsbyggðinni. Það er kannski rétt að vekja sérstaka athygli á því að höfuðborgarsvæðið fær aukið fjármagn, og auðvitað ber að fagna því. Hér er auðvitað mesta umferðin og mikil þörf fyrir framkvæmdir í samgöngumálum, eins og reyndar víðar á landinu.

Þegar fjallað er um það að verið sé að auka fjármagn til vegagerðar fer ekki hjá því að hugsa til þess sem hefur oft gerst hér á undanförnum árum, þ.e. þegar þannig árar hefur þurft að grípa til þess að skera niður framkvæmdir, jafnvel á þenslutímum. Auðvitað berum við þá von í brjósti að til þess komi ekki þannig að sú tillaga sem að lokum verður samþykkt hér á Alþingi muni standast þann tíma sem hún spannar. Það er þó auðvitað ljóst að grundvöllur þess að okkur takist að halda því fjármagni til þessara framkvæmda sem gert er ráð fyrir er auðvitað sá að hér á Íslandi takist áfram að halda uppi góðri og markvissri efnahagsstjórn, eins og núverandi stjórnarflokkar hafa haldið uppi síðustu árin, og ég vek sérstaka athygli á þessu. Einnig vil ég vekja athygli á því að til þess að við getum haft fjármuni til samgöngumála sem og annarra málaflokka er auðvitað mikilvægt að okkur takist að ráðast í þær framkvæmdir sem nú er fjallað um. Þá á ég fyrst og fremst við virkjanaframkvæmdir, uppbyggingu stóriðju og uppbyggingu atvinnulífs, og þar með auknar þjóðartekur. Í þessu sem öðru er það ekki svo að peningarnir falli af himnum ofan, við þurfum að búa í haginn til þess að auka þá fjármuni sem við höfum úr að spila á hverjum tíma.

Það er auðvitað gömul saga og ný að þegar fjallað er um vegáætlanir sýnist sitt hverjum og menn eru misjafnlega sáttir við þær tillögur sem fram koma um skiptingu fjármuna. Það er auðvitað svo, eins og við vitum, að verkefnin eru nánast óþrjótandi og við gætum eytt margföldu því fjármagni, held ég, sem fram kemur í þeim tillögum sem hér eru til þess að vinna að verkefnum í vegamálum. Öll verkefnin eru auðvitað brýn og sitt sýnist hverjum um þau. En okkur hefur tekist að ljúka þessum málum hér á Alþingi með samþykkt vegáætlana og ég sé enga ástæðu til að ætla annað en að svo takist nú í góðri sátt þegar upp verður staðið. Samgn. mun eins og fyrr fjalla um þessi mál og þar er auðvitað saman kominn hópur mætra hv. þm. sem ég veit að mun ganga vel að vinna úr þessu.

Í tillögu til þál. fyrir árin 2003--2014 er lögð til grundvallar stefnumótun, markmið og annað sem auðvitað er vert að fara yfir þó að ég ætli ekki að gera það í smáatriðum. Það er ljóst að við gerð svona áætlana er mikilvægt og nauðsynlegt að vinna eftir skilgreindum markmiðum. Í þessu skjali sem hér liggur fyrir eru markmið skilgreind og ég verð að lýsa ánægju með það að þau skuli liggja fyrir eins og hér er. Það er í fyrsta lagi um greiðar samgöngur, um hagkvæmni í uppbyggingu og rekstri samgangna, um umhverfislega sjálfbærar samgöngur og ekki síst varðandi öryggi í samgöngum. Í þessari umræðu hefur töluvert verið rætt um það atriði og það er auðvitað mikilvægt að okkur takist að vinna að auknu öryggi í samgöngum á öllum sviðum. Þess vegna ber að fagna því að markmið um slíkt komi fram hér í þessari tillögu.

Í tillögunni er grunnnet samgöngukerfisins skilgreint og ég vil sérstaklega vekja athygli á grundvallarskilgreiningu grunnnetsins og vísa þar í þingskjalið, með leyfi forseta:

,,Grunnnet samgöngukerfisins nær til allra byggðakjarna með um það bil 100 íbúa eða fleiri. Það nær til þeirra staða sem eru mikilvægastir fyrir fiskveiðar, ferðamennsku og flutninga til og frá landinu. Netið er samfellt, liggur um þéttbýlisstaði þegar svo háttar til á landinu og helstu samgönguæðar á stærstu þéttbýlisstöðunum teljast til netsins.``

Þetta er mikilvæg skilgreining en hún er auðvitað víð. Ég vek sérstaka athygli á því að þarna er talað um að grunnnet samgöngukerfisins skuli ná til byggðarkjarna með um það bil 100 íbúa eða fleiri. Þetta leiðir hugann að því, herra forseti, að samkvæmt þessari áætlun er auðvitað fjallað um framkvæmdir, stórframkvæmdir, til þess að tengja þéttbýlisstaði við hringvegakerfið og það beinir augum fyrst og fremst að tveimur svæðum landsins, þ.e. annars vegar Vestfjörðum og hins vegar norðausturhorninu. Og ég verð að segja það sem mína skoðun, þrátt fyrir að í þessu plaggi og í þessum tillögum komi fram góður ásetningur um að byggja upp vegakerfið á þessum svæðum og til þessara svæða, ég geri ekki lítið úr því, að ég teldi að betur þyrfti að gera í þeim efnum.

Í upphafi þessarar nýju aldar er auðvitað ekki svo gott að sætta sig við það að fólk í öflugum byggðarkjörnum skuli horfa fram á það að enn þurfi að líða nokkuð mörg ár þar til umferð til og frá þessum stöðum geti farið um uppbyggða vegi og bundið slitlag á hringveginn. Það er auðvitað ekki góð staða og ég verð að leyfa mér að segja það hér að þrátt fyrir góð áform í tillögunni tel ég, eins og staða mála er í þróun byggðar í landinu og eins og kröfur eru uppi í samgöngumálum, að líta beri til þess hvort ekki sé mögulegt að veita sérstakt fjármagn í átak vegna þessara tveggja svæða á landinu. Ég er sannfærður um að almennt í þjóðfélaginu er fólk því sammála að þetta sé ekki góð staða og ég leyfi mér því að ítreka hér í umræðu mikilvægi þess að gera átak í samgöngumálum á þessum svæðum, mér finnst í raun og veru að til hliðar við þessa áætlun ætti að fara í sérstakt átak til að tengja þessa staði við hringvegakerfið.

Við getum síðan rætt um það og eflaust koma einhverjir fram í umræðunni og segja að frekar eigi að leggja aukna peninga í eitthvað annað. En ég hygg, herra forseti, að menn geti verið sammála um það að í byrjun nýrrar aldar sé ekki gott að horfa upp á þessa stöðu eins og hún er. Í því sambandi má m.a. vitna í skilgreininguna sem kemur fram í tillögunni um grunnnetið þar sem lögð er áhersla á það að grunnnetið nái til byggðarkjarna með u.þ.b. 100 íbúa eða fleiri. Ég vil einnig í því sambandi vísa til skýrslu sem nýlega kom fram frá hagfræðideild háskólans þar sem sérstaklega er bent á mikilvægi samgöngubóta í byggðalegu tilliti. Rökin eru því auðvitað fjölmörg fyrir þessu og ég legg sem sagt áherslu á það í þessari umræðu að menn taki það alvarlega að ræða hvort mögulegt sé að gera þessa hluti á þennan hátt.

En ég ætla, herra forseti, ekki að fara út í það að þylja hér upp einstakar framkvæmdir í vegamálum eins og mér hefur fundist bera á hjá einstöku ræðumönnum sem nánast lesa upp lista yfir vegi í samgönguáætluninni sem þyrfti að fara í. Við vitum það að verkefnin eru víða, flest, og eflaust öll, mjög mikilvæg en við höfum takmarkað fjármagn og þurfum að spila úr því.

Ég vil þó, herra forseti, leyfa mér að nefna nokkrar framkvæmdir sem ég tel að séu mjög mikilvægar og vel rökstuddar. Í fyrsta lagi vil ég nefna væntanlegt útboð á brú yfir Kolgrafarfjörð á Snæfellsnesi sem er mjög tímabær framkvæmd og nauðsynleg. Þar er annars vegar um það að ræða að tengja tvo mikilvæga byggðarkjarna á Snæfellsnesi með bundnu slitlagi við hringveginn og í öðru lagi að stytta vegalengdir á Norður-Snæfellsnesi í því skyni að byggja þar upp eitt atvinnu- og þjónustusvæði sem er auðvitað mjög mikilvægt til framtíðar fyrir viðgang byggðanna á því svæði.

Ég vil einnig leyfa mér að nefna veginn um Þverárfjall milli Skagafjarðar og Húnavatnssýslna sem ég tel að sé dæmi um framkvæmd sem skiptir verulega miklu máli í byggðalegu tilliti, þ.e. að stytta vegalengdir og styrkja tengingar milli byggðarkjarnanna í Skagafirði og Húnavatnssýslum. Þarna eru svæði sem hafa átt undir högg að sækja í byggðalegu og atvinnulegu tilliti og því tel ég mjög mikilvægt til framtíðar að þessari framkvæmd ljúki sem fyrst þannig að kostir slíkra samgöngubóta nýtist þessum byggðarlögum til að styrkja þær í atvinnulegu og byggðalegu tilliti.

[19:45]

Ég vildi rétt nefna þessar framkvæmdir, herra forseti, þó ég ætli ekki að fara út í að tína til framkvæmdir, hvorki í mínu kjördæmi né öðrum. Ég mun eiga þess kost að fjalla um þetta mál í samgn. þar sem ég á sæti og einnig mun ég eiga þess kost að fjalla um skiptingu almenns vegafjár í hópi hv. þm. í mínu kjördæmi. Ég ætla ekki að fara nánar út í umræðu um einstök verkefni en ég mun gera það á þeim vettvangi. Þessi tillaga mun síðan koma til síðari umræðu.

Að lokum, herra forseti, vil ég bara leggja áherslu á að góðar og greiðar samgöngur eru grundvallarbyggðamál í þessu landi. Þar gildir einu hvort við tölum um höfuðborgarsvæðið eða landsbyggðina. Það er einfaldlega þannig að góðar og greiðar samgöngur skipta verulega miklu máli og ég tel að þær séu eitt allra mesta hagsmunamál allra landsmanna.

Ég vil bara enda á, herra forseti, að ítreka ánægju mína með að þessi tillaga skuli komin fram, þ.e. tillaga um samræmda samgönguáætlun. Ég tel vel hafa tekist til við að vinna hana. Hæstv. ráðherra og hans fjölmörgu aðstoðarmenn og starfsmenn eiga heiður skilinn fyrir þá miklu vinnu sem liggur að baki. Eins og ég sagði í upphafi er þetta fyrsta skrefið í þessu nýja umhverfi. Ég tel að þetta til bóta og er sannfærður um að við munum njóta góðs af.