Samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006

Þriðjudaginn 04. febrúar 2003, kl. 20:25:05 (3412)

2003-02-04 20:25:05# 128. lþ. 71.8 fundur 563. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006# þál., 469. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014# þál., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 128. lþ.

[20:25]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin, í fyrsta lagi um GSM-dreifikerfið. Það er svo sem alveg hárrétt hjá honum að ör uppbygging hefur verið í þeim efnum hérlendis eins og raunar víðast hvar á síðustu árum. En á allra síðustu missirum hefur satt að segja ákaflega lítið gerst. Ég spurði hæstv. ráðherra út úr um það í fyrirspurnatíma fyrir ekki margt löngu og fékk svo sem ekki mörg svör. Það var enn og aftur gripið til hins gamalkunna viðlags að um viðskiptaleyndarmál væri að ræða. Látum vera með það. Ég fagna því hins vegar að menn ætli sér að gera eitthvað í málinu og ég vænti þess að hæstv. ráðherra geti þá sýnt okkur einhver drög að áætlun, aðgerðaáætlun eða hugmyndum í þeim efnum, áður en við förum heim til að taka lokasprettinn í kosningaslagnum, þ.e. fyrir miðjan mars. Má vænta þess? Ég spyr.

Varðandi Suðurstrandarveginn, herra forseti, er það mál ekki þannig --- og ég spyr: Hvar er að finna þetta flýtifé í Hafnarfjörð, í Suðurnes, í Reykjanesbraut og tvöföldun? Hvar er það flýtifé að finna? Ég rakti það hér áðan að í langtímaáætlun er gert ráð fyrir að þessu verkefni ljúki ekki fyrr en á þriðja og síðasta tímabili. Hvar er þetta flýtifé sem tekið er úr Suðurstrandarvegi og fært í Reykjanesbrautina? Ég bið hæstv. ráðherra að benda mér á það. Hér er ekkert um það að ræða. Hér er bara einfaldlega tekin um það pólitísk ákvörðun að hætta við Suðurstrandarveg. Fyrri ákvarðanir um að leggja fjármagn í hann eru ekki lengur til staðar. Málum er ýtt fram í langa framtíð, og hæstv. ráðherra sagði: Hér er um að ræða ákvörðun mína, mína tillögu í þessum efnum. Og því árétta ég og spyr: Höfðu stjórnarliðar, samflokksmenn hans og framsóknarmenn, einhverja fyrirvara um stuðning við frv. vegna þessarar stefnubreytingar? Það er nauðsynlegt að við hér inni vitum það. Það er nauðsynlegt að kjósendur í hinu nýja Suðurkjördæmi viti þetta.