Samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006

Þriðjudaginn 04. febrúar 2003, kl. 20:29:38 (3414)

2003-02-04 20:29:38# 128. lþ. 71.8 fundur 563. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006# þál., 469. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014# þál., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 128. lþ.

[20:29]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að segja eins og er að ekki fannst mér hæstv. samgrh. stækka mikið í þessu andsvari sínu. Ég lagði á það ríka áherslu í ræðu minni að menn ættu ekki að detta í hið gamalkunna far þéttbýlis og dreifbýlis. Ég gætti þess mjög vel sjálfur í ræðu minni að gera það ekki. En hver datt í þetta fúafen nema hæstv. samgrh. sjálfur? Hann fór í samjöfnuð um verkefni hinna dreifðari byggða og lét í veðri vaka að mér þætti lítið um mikilvæg verkefni í dreifðari byggðum, gangagerð eða dittinn og dattinn. Hvar hef ég sagt það, herra forseti? Hvergi. Þvert á móti lagði ég áherslu á mikilvægi þess. Ég var eingöngu að spyrja um ákaflega einfaldan hlut: Hvernig stendur á því að ekki er staðið við fyrirheit sem gefin voru við afgreiðslu kjördæmabreytingar, sem hæstv. samgrh. kom sjálfur að, þá sem þingmaður, í einni af þeim nefndum sem til voru kallaðar? Af hverju er ekki staðið við gefin fyrirheit þegar kemur að þessu verkefni en það er gert í öðrum tilfellum?

Og ég spyr: Hundrað milljónir króna sem fyrir liggja eru akkúrat aðferðafræði sem ekki á að viðhafa. Hundrað milljónir duga ekki neitt. Og til hvers að vera að byrja einhver verk, geta ekki lokið þeim og ýta þeim inn í framtíðina?

Það sem stendur eftir, herra forseti, er að hæstv. samgrh., með fulltingi stjórnarliða, þar á meðal þingmanna þeirra í Suðurkjördæmi, gamla Reykjaneskjördæmi og Suðurlandskjördæmi, hafa sagt það við Sunnlendinga og kjósendur þar: Það verður ekki farið í þetta verk. Og ástæðan: Ja, af því bara.