Samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006

Þriðjudaginn 04. febrúar 2003, kl. 20:31:48 (3415)

2003-02-04 20:31:48# 128. lþ. 71.8 fundur 563. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006# þál., 469. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014# þál., samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 128. lþ.

[20:31]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Nú, þegar komið er að lokum þessarar umræðu um samgönguáætlanir, þakka ég hv. þingmönnum fyrir mjög fróðlegar umræður og málefnalegar. Hér hefur verið farið yfir sviðið mjög vítt og breitt. Það fer ekkert á milli mála eins og ég sagði í umræðunni fyrr í dag að það er mikill stuðningur frá þingmönnum við úrbætur í samgöngumálum, hvort sem um er að ræða flugvallamálefni, hafnir eða vegi, þannig að allt er gott um það. Ég hef vakið athygli á því að í þessari áætlun, allt frá árinu 2003 til enda tímabilsins, gerum við ráð fyrir því að leggja meiri fjármuni til uppbyggingar samgöngukerfisins en nokkru sinni hefur verið gert áður. Á það hefur verið vandlega bent hér að við höfum fleiri krónur þegar það er metið til verðlags ársins í ár en áður hefur verið. Það er afar mikilvægt. Engu að síður liggur það alveg fyrir að verkefnin eru svo mikil og margvísleg í uppbyggingu samgöngukerfisins í landinu að við þurfum á þessum fjármunum að halda og í rauninni miklu meiri. Og auðvitað þurfum við á næstu missirum og næstu árum að huga að því eins og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson vakti athygli á að við þyrftum nauðsynlega að verja hærra hlutfalli vergra þjóðartekna af ríkisútgjöldum til vegamála. Og við þurfum á því að halda sem þjóðfélag að byggja upp samgöngukerfið vegna þess að það skiptir miklu máli, það eykur velferð í landinu og styrkir atvinnuvegina.

Það á að vera stefna okkar, og er stefna okkar, að reyna allt hvað af tekur að hafa meiri fjármuni til uppbyggingar samgöngukerfisins. En það er nú bara eins og er í lífinu að það er í fleiri horn að líta, það þarf að huga að útgjöldum vegna heilbrigðismála, menntamála og félagsmála, þannig að hér er auðvitað um samkomulagsmál að ræða, við þurfum að ná niðurstöðu um til hvaða hluta við nýtum þá fjármuni sem ríkið hefur úr að spila. Ég get því ekki sagt annað en að miðað við allar aðstæður og í ljósi þess sem ég áður sagði, að við erum með meiri fjármuni úr að spila en áður, hlýt ég sem samgrh. að vera býsna ánægður með þá stöðu sem við erum í þó að auðvitað væri ég tilbúinn til að leggja meiri fjármuni til vegagerðarinnar. Þetta vildi ég segja almennt.

Undirtektir þingmanna við gerð þessarar samgönguáætlunar til fjögurra ára og tólf ára eru mjög góðar og ég þakka fyrir það, og ekki síst stjórnarandstöðunni sem hefur vakið athygli á því. Það er af hinu góða að menn geti sæst og náð saman um þetta mikilvæga mál.

Það komu upp örfá atriði sem ég vil hér í lokin nefna. Það fyrsta var hjá hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur sem spurðist fyrir um hafnamálin, vakti athygli á þeim takmörkunum sem tilteknar hafnir sem ekki njóta ríkisstyrkja þurfa að sæta um öflun tekna, ekki síst af aflagjaldstekjum. Þær fá ekki ríkisstyrki en verða engu að síður að standa undir rekstrinum með þessum tekjum. Þar er úr vöndu að ráða. Í lögum um hafnamál er sameiginleg gjaldskrá fyrir allar hafnir landsins sem samgrh. staðfestir. Sem betur fer eru þessar stóru hafnir allvel settar, ekki síst hér á höfuðborgarsvæðinu, þannig að ég hef út af fyrir sig ekki miklar áhyggjur af þeim. Ég hef hins vegar miklar áhyggjur af fiskihöfnunum, þar er um vanda að ræða. Engu að síður er það svo að stóru vöruhafnirnar sem jafnframt keppa við fiskihafnirnar um viðskipti við fiskiskipaflotann geta við núverandi aðstæður, og ef samkeppnisyfirvöld láta það viðgangast, haft mjög sterka samkeppnisstöðu gagnvart litlu fiskihöfnunum um þjónustu skipaflotans. Afkoma vöruhafnanna er að því leyti góð. Þess vegna hef ég lagt á það áherslu, og hef náð um það býsna góðu samkomulagi við Hafnasamband sveitarfélaga, að breyta beri hafnalögum þar sem m.a. gjaldskrá verði gefin frjáls. En hv. þm. er ekki lengur hér í salnum þannig að ég sé ekki ástæðu til að fara nánar út í þetta. Þetta er þó mál sem þarf að vinna að.

Hv. þm. nefndi einnig sjóvarnir sem ég held að út af fyrir sig sé litlu hægt að bæta við hvað það varðar, sjóvarnir við Hvaleyri. Þar er þörf umhverfismatsaðgerða og annars áður en farið er út í framkvæmdir.

Ég fagna því alveg sérstaklega sem kom fram hjá hv. þingmanni þar sem hún vakti athygli á því mikilvæga máli sem er uppbygging Reykjavíkurflugvallar og þess að hann sé ákveðinn sem höfuðmiðstöð innanlandsflugsins í Reykjavík. Við höfum byggt flugvöllinn upp, aðstaða er gjörbreytt og bætt fyrir flugið. Flugið er að ná sér á strik hvað rekstur varðar. Afkoma flugfélaganna í innanlandsfluginu er að batna. Og það ásamt með aðgerðum stjórnvalda við að styrkja flugið til jaðarbyggðanna hefur haft þá þýðingu sem birtist í bættri stöðu flugfélaganna og einnig hefur útboð á sjúkrafluginu orðið til þess að rekstrarumhverfi flugfélaganna er betra. Ég fagna þess vegna því sem fram kom hjá hv. þingmanni og tek undir að það er mjög mikilvægt að um leið og samgönguáætlun er samþykkt sé gert ráð fyrir því að miðstöð innanlandsflugsins verði við Reykjavíkurflugvöll.

Það er rétt að geta þess að á vegum Flugmálastjórnar og eftir umfjöllun í flugráði er verið að endurskipuleggja starfsemi á flugvöllunum, m.a. hefur þróunin verið sú að það færist meira af æfingaflugi og snertilendingum til Keflavíkurflugvallar sem ég tel að sé af hinu góða, það léttir á umferðinni á Reykjavíkurflugvelli þannig að það er í þá átt sem samkomulag var um milli mín og borgarstjórans í Reykjavík á sínum tíma.

Ég held að það séu ekki fleiri atriði sem ég átti ósvarað hér, nema ég vildi kannski bæta aðeins við það sem ég nefndi í kjölfar ræðu hv. þm. Guðmundar Árna Stefánssonar um hafnasamlög, þar á meðal Hafnasamlag Suðurnesja. Ég tel að það sé eðlilegt að samgn. þingsins fari mjög vandlega yfir málefni hafnanna, ekki síst þeirra hafna sem eru jafnsettar og Hafnasamlag Suðurnesja er, og leiti leiða til þess að styrkja stöðu þeirra. Ég hef þó grun um að það verði ekki öðruvísi gert en með því að auka tekjur þeirra af sjávarútveginum.

Ég vil svo að lokum, hæstv. forseti, þakka fyrir þessar umræður sem hafa verið mjög gagnlegar og málefnalegar svo ég endurtaki það, og ég vænti þess að hv. samgn. geti unnið fullum fetum að fullvinnslu þessarar tillögu.