Samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006

Þriðjudaginn 04. febrúar 2003, kl. 20:42:40 (3417)

2003-02-04 20:42:40# 128. lþ. 71.8 fundur 563. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006# þál., 469. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014# þál., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 128. lþ.

[20:42]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Herra forseti. Það liggur alveg fyrir að á undanförnum missirum hefur ríkisstjórnin unnið að sölu ríkiseigna og fengið inn í ríkissjóð fjármuni vegna þess sem auðvitað auðveldar ríkissjóði að tryggja tekjuhlið fjárlaga sem gera m.a. ráð fyrir því að stórauka framlög til vegamála, og samgöngumála almennt. Að því leyti nýtist sala ríkiseigna. Og vegna þess að við greiðum niður skuldir og lækkum þar af leiðandi vaxtagreiðslur ríkissjóðs erum við að búa í haginn til þess að geta sett meiri fjármuni til framkvæmda eins og í samgöngumálum. Með þeim óbeina (Gripið fram í: Hvenær?) hætti leggjum við söluandvirði ríkiseignanna inn í uppbyggingu samgöngukerfisins eins og ég hef hér rakið. Beint höfum við hins vegar gert ráð fyrir því að framkvæmdir við jarðgöngin, og þá horfi ég alveg sérstaklega á hv. 3. þm. Norðurl. v. sem ég veit að er alveg afskaplega ánægður með þau áform, séu fjármagnaðar með sölu ríkiseigna. Við gerum ráð fyrir því að á fyrsta tímabili setjum við í það 6,4 milljarða, 5 milljarða á öðru tímabili og 2 milljarða á þriðja tímabili. Það er því ekki eingöngu um að ræða þessi tvenn eða þrenn jarðgöng sem koma úr þessari fjármögnun, heldur gerum við ráð fyrir því að næsti áfangi í jarðgangaáætluninni verði fjármagnaður með sama hætti. Það er inni í þessari 12 ára áætlun og hægt að vísa til þess.