Samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006

Þriðjudaginn 04. febrúar 2003, kl. 20:52:08 (3423)

2003-02-04 20:52:08# 128. lþ. 71.8 fundur 563. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006# þál., 469. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014# þál., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 128. lþ.

[20:52]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. reynir að gera úlfalda úr mýflugu. Það liggur alveg fyrir að hann er að reyna að teygja lopann og skapa einhverja úlfúð í kringum þessa áætlun.

Það liggur fyrir að hér eru áform um útgjöld, m.a. til vegamála. Við höfum lýst því yfir að við nýtum m.a. sölu ríkiseigna til uppgreiðslu skulda og til að auðvelda okkur fjármögnun ríkissjóðs. Það er ekkert nýtt í því. Ég er ekki að gefa neinar nýjar upplýsingar hvað það varðar.

Tekjuhlið áætlunarinnar er alveg skýr, sundurliðuð, og ekki ástæða til að gera það á nokkurn hátt tortryggilegt sem þar kemur fram eða sem ég hef sagt hér í kvöld um tekjuöflun vegna þessarar áætlunar. Ég held að hv. þm. ætti að geyma frekari stóryrði í minn garð þar til að hv. þm. Vinstri grænna hafa fengið tækifæri til að vinna í þessu máli í samgn. Þar gefst mjög gott tækifæri til að fara bæði yfir tekjur og gjöld þessara áætlana. Til þess eru nefndirnar, að fara yfir þessi mál.

Ég tel að það liggi ljóst fyrir hvernig almenn tekjuöflun til þessarar áætlunar er upp sett.