Siglingastofnun Íslands

Þriðjudaginn 04. febrúar 2003, kl. 21:06:11 (3431)

2003-02-04 21:06:11# 128. lþ. 71.10 fundur 539. mál: #A Siglingastofnun Íslands# (vaktstöð siglinga, EES-reglur) frv., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 128. lþ.

[21:06]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vildi koma þessum sjónarmiðum að á þessu stigi áður en menn taka ákvörðun um hvar stofnuninni verður varanlega fyrir komið.

Það er kannski ekki að ástæðulausu sem ég velti þessu upp núna því að á þessu kjörtímabili, alla vega a.m.k. á síðustu missirum, hafa stöðvar verið lagðar niður í Neskaupstað, Siglufirði og Ísafirði. Því má segja sem svo að störf hafi verið flutt til höfuðborgarinnar. Sjálfum finnst mér þetta vera störf sem virkilega geta átt heima á landsbyggðinni og að þeim sé vel fyrir komið þar, að þessi starfsemi sé alveg í samræmi við og falli vel að þeim byggðarlögum sem geta tekið við þessu.

Ég vil alla vega koma þessari hugmynd inn í þessa umræðu. Mér fannst á hæstv. ráðherra að hann tæki vel í þetta, þó ég ítreki það sem ég hef sagt áður að það er alveg óvíst að hann komi að því eftir næstu kosningar.