Rannsókn sjóslysa

Þriðjudaginn 04. febrúar 2003, kl. 21:36:25 (3440)

2003-02-04 21:36:25# 128. lþ. 71.12 fundur 552. mál: #A rannsókn sjóslysa# (starfshættir rannsóknarnefndar, aðsetur o.fl.) frv., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 128. lþ.

[21:36]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Ég held að þetta sé ágætisfrv. sem hér er til umræðu og ætla svo sem ekki að fara að fjalla um það í heild en ég sé ástæðu til þess að ræða um eina grein frv. og kem að því síðar hver ástæðan er fyrir því. Hæstv. ráðherra nefndi það í framsögu sinni. Það er sem sagt það nýmæli sem kemur fram í 4. gr. frv. Um það segir, með leyfi forseta: ,,Í 1. efnismgr. er tiltekið að rannsóknarnefnd sjóslysa skuli, þegar það á við, láta rannsókn sjóslyss jafnframt ná til atriða sem telja má að ráði miklu um afleiðingar sjóslysa, ...`` Ég vil ræða þetta vegna þess að ég hef flutt hér á síðustu tveimur þingum þáltill. um úttekt á skipulagi sjóbjörgunarmála og mér sýnist að með 4. gr. þar sem sjóslysanefnd er falið það hlutverk að skoða afleiðingar slysanna og hvað gerist í landi, sé verið að gera töluverðan hluta af því sem ég hef lagt til í þessari þáltill., þ.e. að fjalla um þessa hluti, aðstæður björgunarmanna, möguleika til að komast að slysstöðum, t.d. á staði þar sem oft verða slys, láta jafnvel gera vegslóða á slíka staði, koma fyrir einhvers konar tækjum á þeim stöðum þar sem oftast hafa orðið slys. Ég nefni Snæfellsnes og Reykjanes í þessu sambandi og það er auðvitað nefnt í greinargerð með þáltill. sem nýlega var vísað til nefndarinnar. Ég vek athygli nefndarmanna á þessari þáltill. Ég býst við að sjóslysanefnd muni þá gera tillögur til úrbóta á þeim atriðum sem koma upp vegna slysanna.

Í þáltill. er einnig rætt um staðsetningartækin, fjarskiptin og annað slíkt sem kom sérstaklega upp í þeim slysum sem voru hér nefnd áðan þar sem tæknin var til staðar en nýttist ekki af ýmsum ástæðum, sem líklega má rekja til þess að endurvarpsstöðvar vantaði og annað eftir því. Allt þetta mun sjóslysanefnd nú fjalla um og hafa það hlutverk að fjalla um eftir að frv. verður samþykkt sem ég vona sannarlega að verði.

Erindi mitt hingað var hins vegar að fagna því að þetta frv. skuli flutt og að vekja athygli á þessari till. til þál. Það er fleira í henni en ég hef farið yfir hér en ég vildi láta þetta koma fram við umræðuna.