Gerð neyslustaðals

Miðvikudaginn 05. febrúar 2003, kl. 13:44:25 (3446)

2003-02-05 13:44:25# 128. lþ. 73.1 fundur 500. mál: #A gerð neyslustaðals# fsp. (til munnl.) frá forsrh., GÁS
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 128. lþ.

[13:44]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir að hreyfa þessu máli og vekja athygli á mikilvægi þeirrar umræðu sem hér á sér stað. Það er á hinn bóginn ástæða til að taka undir með hæstv. forsrh. að vissulega er erfitt að setja fastákveðin og niðurnjörvuð viðmið í þessum efnum, og tæpast er það á færi embættismannanefndar að segja fólki fyrir um lágmark þess sem almenningur geti komist af með í lífi sínu.

Það vekur hins vegar athygli og rifjar upp, herra forseti, að hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur ítrekað sagt almenningi frá því að hægt sé að lifa á lágmarksbótum, 70 þús. kr., og heil fjölskylda þar undir. Þar er helsti efnahagsráðgjafi hæstv. forsrh. að verki þannig að kannski getur hæstv. forsrh. farið í smiðju til hans í þessum efnum.