Gerð neyslustaðals

Miðvikudaginn 05. febrúar 2003, kl. 13:47:25 (3449)

2003-02-05 13:47:25# 128. lþ. 73.1 fundur 500. mál: #A gerð neyslustaðals# fsp. (til munnl.) frá forsrh., Fyrirspyrjandi JóhS
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 128. lþ.

[13:47]

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin en verð að segja eins og er að mér finnst mjög sérkennilegt að blanda því verkefni sem tillagan gerði ráð fyrir, um neyslustaðal, inn í störf nefndar sem á að kanna kosti og galla þess að taka upp fjölþrepaskatt. Því er blandað í verkefni hennar að skoða þetta verkefni um neyslustaðal, kanna notkun á neysluviðmiðunum í nágrannalöndum og leggja mat á það hvort ástæða sé til að samræma slík neysluviðmið hér á landi, notkun þeirra og aðferð við gerð þeirra. Mér finnst sérkennilegt að blanda þessu saman og vona að þetta mikilvæga verkefni verði ekki hornreka í starfi nefndarinnar. Ég verð að treysta hæstv. ráðherra til þess að þannig verði staðið að máli að uppfyllt verði það verkefni sem Alþingi fól framkvæmdarvaldinu. Það eru mjög margir aðilar sem kalla eftir því að þessi neyslustaðall verði gerður, ýmsir sem m.a. vinna að bóta- og styrkjamálum í velferðarkerfinu. Það hefur komið fram að það vantar 40 þús. kr. upp á að greiðslur bótakerfisins samsvari því lágmarksframfærsluviðmiði sem félmrn. hefur gefið út vegna félagsþjónustulaganna.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Má búast við því að sú úttekt sem hér á að gera samkvæmt þessari tillögu liggi fyrir áður en þing kemur saman? Ég lýsi líka óánægju minni með svör ráðherrans við 3. fyrirspurninni, um það að skilgreina lágmarksframfærslukostnað eftir fjölskyldugerð, sem er mjög mikilvægt til þess að hægt sé að fara í það verkefni að skilgreina umfang fátæktar hér á landi. Margir aðilar telja það mjög brýnt og mér hefur skilist að ríkisstjórnin sé að kortleggja umfangið en til þess að það sé gert með skynsamlegum hætti þarf að skilgreina lágmarksframfærslukostnað og það er auðvitað hægt að gera í samráði við sveitarfélögin. Það eru fyrst og fremst þau og ríkisvaldið sem þurfa að nota slíka neysluviðmiðun.