Flutningur fjarvinnsluverkefna og starfa út á land

Miðvikudaginn 05. febrúar 2003, kl. 14:00:39 (3454)

2003-02-05 14:00:39# 128. lþ. 73.2 fundur 470. mál: #A flutningur fjarvinnsluverkefna og starfa út á land# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., GÁS
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 128. lþ.

[14:00]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Kristjáni L. Möller fyrir að hreyfa þessu máli. Hann hefur gert það rækilega aftur og aftur og hlýtt ráðherrum ríkisstjórnarinnar yfir hverjum af öðrum. Niðurstaðan er alveg skýr. Orð og efndir fara ekki saman. Það hefur ekki verið staðið við gefin fyrirheit eða loforð. Ég held að það sé alveg ástæðulaust fyrir formann Framsfl. að fyrtast við og setja hér á skammarræðu gagnvart fyrirspyrjanda. Það efast enginn um að hæstv. ráðherra og formaður Framsfl. hefur viljann í för með sér en niðurstaða mála er engu að síður sú að ríkisstjórninni hefur ekki tekist að standa við gefin fyrirheit. Það er ekki stjórnarandstöðunni að kenna, og vafamálin sem eftir standa eru einfaldlega þessi. Það voru gefin loforð í sumum tilfellum, skapaðar vonir og væntingar. Niðurstaðan er sú að þetta er í rjúkandi rúst. Því hefur ekki verið skilað af hálfu ríkisstjórnarinnar sem lofað var. Það getur ekki verið stjórnarandstöðunni að kenna, herra forseti. Eða hvað?