Flutningur fjarvinnsluverkefna og starfa út á land

Miðvikudaginn 05. febrúar 2003, kl. 14:01:52 (3455)

2003-02-05 14:01:52# 128. lþ. 73.2 fundur 470. mál: #A flutningur fjarvinnsluverkefna og starfa út á land# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., LB
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 128. lþ.

[14:01]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Kristjáni L. Möller fyrir fyrirspurnir sem hann hefur lagt fyrir hvern ráðherrann á fætur öðrum og dregið það fram að það hafi óskaplega lítið gerst í þessum efnum.

Það hefur hins vegar verið dálítið fróðlegt að hlýða á hæstv. oddvita ríkisstjórnarinnar í dag og í gær þar sem þeir eru að vanda um við fólk á einn eða annan hátt, vanda um við þingheim og vanda um við einstaka þingmenn því að þeir gera ekki annað en að halda vel á sínum verkefnum og sinna sínum störfum, og m.a. benda á hverju menn lofuðu í upphafi kjörtímabils og hvernig menn fóru yfir þá umræðu.

Það er alveg rétt sem fram kom hjá hæstv. utanrrh. að þeir möguleikar sem tæknin býður upp á í fjarvinnslu hafa ekki verið nýttir. Það er akkúrat það, virðulegi forseti, sem hv. þm. dregur hér fram. Það hafa verið mikil tækifæri en núverandi ríkisstjórn hefur ekki nýtt þau og það er alveg fráleitt, virðulegi forseti, að af þeim sökum skuli vera vandað um við einstaka þingmenn. Menn eiga frekar að bera ábyrgð á eigin orðum.