Flutningur fjarvinnsluverkefna og starfa út á land

Miðvikudaginn 05. febrúar 2003, kl. 14:05:24 (3458)

2003-02-05 14:05:24# 128. lþ. 73.2 fundur 470. mál: #A flutningur fjarvinnsluverkefna og starfa út á land# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., Fyrirspyrjandi KLM
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 128. lþ.

[14:05]

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller):

Herra forseti. Fyrir það fyrsta þakka ég þingmönnum og hæstv. ráðherra fyrir þessa umræðu, þeim þingmönnum sem lögðu orð í belg og hæstv. ráðherra fyrir svör þótt ég verði að segja alveg eins og er að hvorki komu þau mér á óvart né glöddu mig, að hæstv. ráðherra kæmi hér og segði okkur eins og allir aðrir ráðherrar: Því miður, engin störf. Ég skil ekki alveg hvað hæstv. ráðherra varð fúll á móti, ef svo má að orði komast, yfir því að ég vogaði mér að vitna í þau orð sem hann viðhafði í Ríkisútvarpinu um þær vonir og væntingar sem ráðherrar og aðrir gáfu landsbyggðarfólki á sínum tíma. Það fór af stað og stofnaði þessar fjarvinnslustöðvar. Hvar eru þær í dag? Ætli þær séu ekki allar með tölu búnar að ganga frá sér, orðnar gjaldþrota og skilja eftir sig skuldir og fólk í miklum erfiðleikum, fólk sem lét glepjast, m.a. vegna orða hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh.? Sannarlega vega orð forsvarsmanna ríkisstjórnarinnar þungt og fólk tekur eftir þeim.

Það er alveg hárrétt sem hæstv. ráðherra sagði, þetta hefur tekist vel á nokkrum stöðum. Hann nefndi Kaupþing og Siglufjörð og það er hárrétt. Það sýnir að þetta er hægt. En hvers vegna er það bara hægt hjá einkaaðilum og einkafyrirtækjum úti í bæ? Af hverju getur ríkisstjórnin ekkert gert? Er það þannig, herra forseti, að ráðherrar eru svo uppteknir við önnur verkefni að þetta er einhvers konar olnbogabarn? Segja forsvarsmenn ráðuneytanna við ráðherrana: Látið ykkur ekki detta í hug að þetta sé hægt, og þar með leggja menn niður skottið og gefast upp? Er þetta svoleiðis, herra forseti?

Það kom hér fram að ég hef spurt alla ráðherrana öll þessi ár þessa kjörtímabils og svörin eru jafndapurleg og ég hef vitnað í.

Herra forseti. Þetta tækifæri er til í atvinnusköpun landsbyggðarinnar en það hefur ekki verið notað af hæstv. ríkisstjórn.