Flutningur fjarvinnsluverkefna og starfa út á land

Miðvikudaginn 05. febrúar 2003, kl. 14:10:05 (3460)

2003-02-05 14:10:05# 128. lþ. 73.3 fundur 482. mál: #A flutningur fjarvinnsluverkefna og starfa út á land# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi KLM
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 128. lþ.

[14:10]

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller):

Herra forseti. Ég ætla rétt að vona að næsti ráðherra sem ég er að spyrja sömu spurninga hafi farið betur fram úr í morgun en sá sem var hér áðan. Ég hef lagt sambærilega fyrirspurn fyrir iðnrh. sem er þá síðasta fyrirspurn sem ég legg fram til ráðherra í þessari ríkisstjórn Íslands og vona ég að ég þurfi ekki að leggja aftur fram fyrirspurn til þessara annars ágætu ráðherra. (Gripið fram í.) Það er um þetta mál.

Ég ætla aðeins að grípa niður í þau svör sem ég hef fengið skrifleg út af þessari sömu fyrirspurn, með leyfi forseta.

Forsrh. svarar: ,,Engin störf á vegum ráðuneytis eða undirstofnana þess voru flutt út á land árið 2002.``

Viðskrh. svarar: ,,Engin störf á vegum ráðuneytisins eða stofnana þess voru flutt út á land árið 2002.``

Dómsmrh. svarar: ,,Því er til að svara að árið 2002 var ekki um slíkan flutning að ræða á vegum ráðuneytisins eða stofnana og fyrirtækja sem undir það heyra.``

Umhvrh. svarar: ,,Því er til að svara að engin fjarvinnsluverkefni eða störf voru flutt út á land á vegum ráðuneytis og stofnana þess árið 2002.``

Menntmrh. svarar: ,,Engin fjarvinnsluverkefni eða störf á vegum ráðuneytis voru flutt út á land á árinu 2002.``

Fjmrh. svarar: ,,Engin fjarvinnsluverkefni voru flutt út á land árið 2002 á vegum ráðuneytisins eða stofnana og fyrirtækja þess.``

Samgrh.: ,,Engin voru flutt fjarvinnsluverkefni á vegum undirstofnana þess út á land 2002.``

Félmrh. hefur svarað en það var ófullkomið og var sent til baka vegna þess að hann svaraði ekki spurningunni.

Sjútvrh. hefur ekki svarað enn.

Við höfum hlustað á munnlegt svar hæstv. utanrrh. Og nú er komið að því að leggja þessa sömu fyrirspurn fyrir hæstv. iðnrh., ráðherra byggðamála.

Ég veit ekki, herra forseti, hvort ég ætti að voga mér að vitna í ein ummæli þess hæstv. ráðherra sem viðhöfð voru þegar fjarvinnslumiðstöð var opnuð í Ólafsfirði. Ég er hálfhræddur við að gera það en ég ætla samt að láta mig hafa það. Hæstv. iðnrh. sagði í lok þessa fundar aðspurð um fjarvinnsluverkefni: ,,Fyrir lok þessa mánaðar trúi ég því að það verði eitthvað að frétta um fjarvinnsluverkefni.`` (Gripið fram í: Hvaða mánuður er það?) (Viðskrh.: ... búin að svara því máli.) Þetta var í febrúar 2000 (Gripið fram í.) og nú er ég að spyrja fyrir árið 2002. (Gripið fram í: 2003.) Nei, ég er að spyrja vegna ársins 2002 og nú bíð ég auðvitað jafnspenntur eftir að ráðherra byggðamála á Íslandi komi hingað í ræðustól og toppi þá ráðherra sem hafa svarað hér á undan. (Gripið fram í: En er þetta ekki spurning um ...?) Það hlýtur að vera mjög auðvelt vegna þess að það þarf ekki nema eitt starf til þess að gera betur en allir hinir ráðherrarnir til samans. Þess vegna er spurning mín svohljóðandi:

Hvaða fjarvinnsluverkefni og hversu mörg störf á vegum ráðuneytisins og stofnana og fyrirtækja sem heyra undir ráðuneytið voru flutt út á land árið 2002, sundurliðað eftir stöðum sem verkefnin og störfin voru flutt til? Enn fremur er óskað eftir skilgreiningu á umræddum störfum.