Flutningur fjarvinnsluverkefna og starfa út á land

Miðvikudaginn 05. febrúar 2003, kl. 14:18:06 (3463)

2003-02-05 14:18:06# 128. lþ. 73.3 fundur 482. mál: #A flutningur fjarvinnsluverkefna og starfa út á land# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 128. lþ.

[14:18]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Það verður að segjast eins og er að það er ömurleg niðurstaða eftir fjögur ár að þau loforð, þær hugmyndir og góðu óskir sem menn höfðu fyrir síðustu kosningar skuli hafa brugðist svo gjörsamlega sem raun ber vitni. Ég verð að viðurkenna að ég er einn af þeim sem telja að það sé að hluta til vegna þess að það er svo mikil tregða í hinu opinbera kerfi. Menn vilja ekki horfast í augu við að hægt sé að vinna svona verkefni annars staðar en innan þeirra stofnana sem fyrir hendi eru, hvar sem þær nú eru. Það er kannski dálítið mikið vandamál sem þarf að taka á. Mér finnst engin ástæða til að gefast upp við þetta. Það eru alveg möguleikar fyrir hendi. En það er auðvitað dapurlegt að menn skuli hafa eytt öllum þessum tíma og að það skuli hafa kostað svo óskaplega mikið það fólk sem trúði að til yrðu störf og stofnaði fyrirtæki til að vinna að þessum verkefnum.