Flutningur fjarvinnsluverkefna og starfa út á land

Miðvikudaginn 05. febrúar 2003, kl. 14:23:10 (3467)

2003-02-05 14:23:10# 128. lþ. 73.3 fundur 482. mál: #A flutningur fjarvinnsluverkefna og starfa út á land# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., EKG
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 128. lþ.

[14:23]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Tölurnar tala sínu máli þannig að út af fyrir sig þarf ekkert að tala um það hvort menn hafi staðið sig í því eða hvort það hafi gengið eftir að flytja þessi verkefni út á land með þeim hætti sem hér er verið að spyrja um. Hins vegar vil ég vekja athygli á því sem mér finnst hafa legið í þagnargildi í þessari umræðu. Það er sú staðreynd að það fer fram gríðarlega mikil fjarvinnsla jafnt á sviði einkafyrirtækja og opinberra fyrirtækja.

Það er auðvitað þannig að opinberar stofnanir eins og Vegagerðin og fleiri stofnanir sem starfa út um allt land vinna að miðlægum verkefnum á grundvelli fjarvinnsluþekkingarinnar. Mér finnst að þessi umræða sé dálítið misvísandi og röng að því leyti að menn eru að gera því skóna að engin slík starfsemi eigi sér stað á vegum hins opinbera. Það er rangt. Það fer fram margs konar fjarvinnsla þó að hún hafi ekki haft þann aðdraganda sem hér er verið að spyrjast fyrir um. Engu að síður fer fram fjarvinnsla á vegum opinberra stofnana og fyrirtækja og banka og fjármálastofnana, allra mögulegra aðila sem eru að láta vinna fyrir sig og nýta þessa möguleika. Það er alveg ljóst að ef þessi tækni hefði ekki verið til staðar og þessi fyrirtæki og stofnanir ekki nýtt hana hefði hættan verið sú að dregið hefði úr slíkri starfsemi úti á landsbyggðinni. (Gripið fram í: Svara í síma?)