Flutningur fjarvinnsluverkefna og starfa út á land

Miðvikudaginn 05. febrúar 2003, kl. 14:24:30 (3468)

2003-02-05 14:24:30# 128. lþ. 73.3 fundur 482. mál: #A flutningur fjarvinnsluverkefna og starfa út á land# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., EMS
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 128. lþ.

[14:24]

Einar Már Sigurðarson:

Herra forseti. Hv. þingmenn grípa til sérkennilegra varnarbragða. Nú kemur hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson og ræðir um að vissulega sé fjarvinnsla víða stunduð. Það er alveg hárrétt hjá hv. þm. Fjarvinnsla er víða stunduð. Málið er þó að fjarvinnslan er mest stunduð á höfuðborgarsvæðinu. Það voru gefin fyrirheit um að því ætti að snúa við og færa eitthvað af því út á land. En það hefur ekki gerst.

Það gengur auðvitað ekki að hv. þm. sem hafa verið ötulir talsmenn þess að færa störf út á land komi hér og láti eins og allt sé í lagi í þessum efnum. Því miður er það ekki svo. Ég vona að hæstv. ráðherra sem á eftir að tala á eftir komi og upplýsi okkur í eitt skipti fyrir öll um hvað valdi því að ráðherrarnir ráða ekki við þetta verkefni sitt, verkefni sem þeir hafa margoft ítrekað að þeir hafi fullan hug á. Hverjir í kerfinu stoppa þetta? Við þurfum að fá það upp á borðið þannig að hægt sé að upplýsa hvað heldur þessum tappa svo föstum svo lengi.