Flutningskostnaður

Miðvikudaginn 05. febrúar 2003, kl. 14:42:50 (3476)

2003-02-05 14:42:50# 128. lþ. 73.4 fundur 434. mál: #A flutningskostnaður# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi EKG
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 128. lþ.

[14:42]

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Það sem mér finnst standa upp úr þessari umræðu allri saman er sú staðreynd að flutningskostnaður í landinu hefur vaxið umfram verðlag. Við þurfum að beina sjónum okkar að því og reyna að átta okkur á hvers vegna það er.

Það sem mér sýnist af lestri þessarar skýrslu er að hækkun eða breyting á opinberum álögum nægi ekki til að skýra hækkunina. Við verðum að horfa til annarra þátta. Þess vegna er ekki eins og menn hafa látið í veðri vaka, að hækkun þungaskatts og annarra opinberra gjalda á undanförnum árum hafi orðið til þess að flutningskostnaðurinn hafi hækkað jafnmikið og raun ber vitni og skýrslan leiðir í raun í ljós.

Ég sakna þess hins vegar úr skýrslunni, get tekið undir það og þess vegna lagði ég áherslu á það í fyrirspurn minni, að reynt væri að leggja mat á hversu mikið vægi þungaskatturinn, þessi stóri gjaldstofn hins opinbera, hefði í flutningskostnaðinum í heild sinni. Þess vegna fagna ég því að málið verður unnið áfram af hálfu ríkisstjórnarinnar, m.a. til að reyna að átta sig á þessu. Við sjáum það í hendi okkar að tæki ríkisins, hin beinu tæki ríkisins, hljóta m.a. að lúta að því að hafa áhrif á þessa gjaldheimtu og hvernig henni er beitt. En við sjáum hins vegar að jafnvel þó að við gerðum það þá virðist sem það muni ekki duga. Það er ekki nægjanleg skýring á þeirri breytingu sem hefur orðið.

Það er líka alveg ljóst að samkeppnin í landinu á flutningasviðinu er mjög takmörkuð. Hún er sannarlega til á ýmsum sviðum, t.d. til varðandi fiskflutning en svo er alls ekki á öllum sviðum. Hún er ekki til staðar í flutningi á pakkavöru með sama hætti og verið hefur. Þetta á örugglega sinn þátt í verðlagsþróun varðandi flutningana.

Ég hef áður vakið máls á því að það er áhyggjuefni að til séu heil svæði þar sem þessi samkeppni er ekki til staðar. Svarið við því er því að halda uppi regluverki sem tryggir eðlilega samkeppni á þessum sviðum sem öðrum.