Persónulegur talsmaður fatlaðra

Miðvikudaginn 05. febrúar 2003, kl. 14:47:44 (3478)

2003-02-05 14:47:44# 128. lþ. 73.5 fundur 498. mál: #A persónulegur talsmaður fatlaðra# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 128. lþ.

[14:47]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. félmrh. í þá veru hvort hann telji tímabært að lögfesta þau réttindi að fötluðum sem ekki geta sjálfir gætt réttar síns verði skipaður persónulegur talsmaður til þess að annast réttindagæslu fyrir þá og tala máli þeirra þegar álitamál koma upp sem þá varða.

Núna er einn trúnaðarmaður í hverju kjördæmi, gömlu kjördæmunum, og hann er fyrir stóran hóp einstaklinga. Ríkisendurskoðun hefur ítrekað gert athugasemdir við bága réttarstöðu og réttaröryggi fatlaðs fólks. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá 2002 um Sólheima í Grímsnesi segir t.d., með leyfi forseta:

,,Ríkisendurskoðun telur að trúnaðarkerfi eða annað það kerfi sem löggjafi kýs til að tryggja betur rétt hinna fötluðu þurfi að efla til muna.``

Einnig kemur fram í úttekt frá Ríkisendurskoðun frá því árið 2000 þar sem tekin var fyrir stjórnsýsluendurskoðun á verkefnum reynslusveitarfélagsins Akureyrar að þar eru einmitt gerðar einnig alvarlegar athugasemdir við faglegt eftirlit.

Á Norðurlöndum, í Noregi, Svíþjóð og Danmörku, er þroskaheftum og öðrum fötluðum sem ekki geta gætt réttar síns vegna fötlunar skipaður persónulegur talsmaður sem er þá einhver sem talar fyrir hönd viðkomandi ef upp koma álitamál, t.d. ef einhver rannsókn er í gangi eða vegna upplýsts samþykkis eða annars sem hinn fatlaða varðar. Þarna er ekki eingöngu átt við þroskahefta heldur einnig ákveðinn hóp geðfatlaðra sem þyrfti að geta átt slíkan talsmann.

Á Norðurlöndum, a.m.k. í Noregi, er trúnaðarmaðurinn eða talsmaðurinn launalaus og þá er þetta nokkurs konar þegnskylda. Reyndar er ég ekki alveg viss um hvort hann er alveg launalaus. Ég held að hann fái einhverja þóknun fyrir, en það er þegnskylda að taka þetta að sér.

Þroskahjálp hefur einmitt barist mikið fyrir því að efla réttargæslu fatlaðra og er með ítarlegar tillögur í þeim efnum þar sem einmitt kemur inn persónulegur talsmaður eins og ég er hér að kalla eftir. Þetta er orðið nokkuð bagalegt í dag. Upp hafa komið tilvik þar sem hefði þurft að vera slíkur talsmaður. Ég vil nefna sem dæmi leigusamningana sem hafa verið gerðir á sambýlum, þar sem ýmsir vistmenn hafa ekki getað skrifað undir og þá er ekki hægt að þinglýsa samningunum og ef samningur er ekki þinglýstur eiga viðkomandi vistmenn ekki rétt á húsaleigubótum. Því er orðið löngu tímabært að koma inn í kerfið réttindum til að fá skipaðan slíkan talsmann og því vona ég að hæstv. ráðherra svari fyrirspurn minni játandi og drífi í þessu sem fyrst.