Persónulegur talsmaður fatlaðra

Miðvikudaginn 05. febrúar 2003, kl. 14:50:55 (3479)

2003-02-05 14:50:55# 128. lþ. 73.5 fundur 498. mál: #A persónulegur talsmaður fatlaðra# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 128. lþ.

[14:50]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég geng út frá því að hér sé átt við fatlaða í skilningi laganna um málefni fatlaðra, nr. 59/1992. Þetta málefni um persónulegan talsmann fatlaðra var tekið til athugunar í tengslum við undirbúning að fyrirhugaðri yfirfærslu málefna fatlaðra til sveitarfélaganna á árunum 1998--2001. Niðurstaða af þeirri vinnu kemur fram í frv. til laga um réttindagæslu fatlaðra sem lagt var fyrir Alþingi á 126. löggjafarþingi, 2000--2001.

Í starfi nefndarinnar sem samdi frv. kynnti fulltrúi Þroskahjálpar tillögur samtakanna um fjórþætt réttindagæslukerfi fatlaðra á vegum ríkisins. Kerfið skyldi skiptast þannig:

1. Embætti umboðsmanns fatlaðra.

2. Fötlunarráð.

3. Réttindagæslumenn.

4. Trúnaðarmenn.

Nefndin féllst ekki á að koma þyrfti á svo viðamiklu kerfi til að hagsmunir fatlaðra yrðu sómasamlega tryggðir þegar þjónusta við þá færðist til sveitarfélaganna. Nefndin lagði því til kerfi sem samanstóð af einum réttindagæslumanni fyrir landið allt og síðan trúnaðarmönnum í hverju kjördæmi. En eftir að fallið var frá yfirfærslu málefna fatlaðra til sveitarfélaganna hefur ekki verið umræða um að lögfesta persónulegan talsmann fatlaðra. Fatlaðir eiga auðvitað aðgang að trúnaðarmanni fatlaðra samkvæmt lögunum um málefni fatlaðra.

Þann 30. september 2002, þ.e. í haust, sendi ég bréf til Landssamtakanna Þroskahjálpar og Öryrkjabandalagsins svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Félagsmálaráðherra hefur ákveðið að skipa starfshóp sem kanni með hvaða hætti megi tryggja sem best réttaröryggi og jafnrétti fólks með fötlun. Starfshópinn munu skipa fulltrúar frá Öryrkjabandalagi Íslands, Landssamtökunum Þroskahjálp og félagsmálaráðuneytinu.``

Síðan var óskað eftir því við Landssamtökin Þroskahjálp og Öryrkjabandalagið að þau tilnefndu hvort sinn fulltrúann í starfshópinn. Landssamtökin Þroskahjálp svöruðu um hæl, með leyfi forseta:

,,Landssamtökin Þroskahjálp fagna þeirri ákvörðun félagsmálaráðherra að skipa starfshóp sem kanni með hvaða hætti megi tryggja sem best réttaröryggi og jafnrétti fólks með fötlun. Samtökin hafa ákveðið að tilnefna Friðrik Sigurðsson, Sörlaskjóli 60, sem fulltrúa sinn í nefndina.

Virðingarfyllst,

f.h. Landssamtakanna Þroskahjálpar.

Halldór Gunnarsson formaður.``

Öryrkjabandalagið hefur hins vegar ekki tilnefnt í starfshópinn enn þá. Orsökin mun vera sú, ef ég hef skilið málið rétt, að væntanleg mun vera tilskipun frá Brussel varðandi réttindamál fatlaðra og Öryrkjabandalagið telur rétt að hinkra við eftir því að sú tilskipun liggi fyrir áður en hafist verður handa um að slá því í gadda hvernig við ætlum að hafa þetta hér. Það má út af fyrir sig fallast á að það geti verið skynsamlegt sjónarmið.