Heilsugæslumál á Suðurnesjum

Miðvikudaginn 05. febrúar 2003, kl. 14:58:05 (3482)

2003-02-05 14:58:05# 128. lþ. 73.6 fundur 502. mál: #A heilsugæslumál á Suðurnesjum# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi KPál
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 128. lþ.

[14:58]

Fyrirspyrjandi (Kristján Pálsson):

Herra forseti. Nú eru liðnir rúmir þrír mánuðir síðan 12 heilsugæslulæknar gengu út úr heilsugæslunni á Suðurnesjum. Mánuði eftir að deilan hófst voru tveir læknar ráðnir til starfa við heilsugæsluna á ný og í gær voru ráðnir tveir sérfræðilæknar sem sinna heilsugæslulækningum og eru læknar við heilsugæslustöðina því orðnir fjórir. Að mati yfirlæknis Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja þarf ekki að ráða í allar 12 stöðurnar aftur heldur gæti dugað að ráða í sjö eða þar um bil og fækka læknum því verulega.

Eftir því sem ég kemst næst þá hefur ekki skapast neyðarástand á svæðinu vegna læknaskorts og má það þakka að mestu mikilli hagræðingu innan Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja og því að hjúkrunarfræðingar og annað fagfólk hefur tekið að sér þau störf sem heilsugæslulæknar hafa haft með höndum fram að þessu. Engin læknaþjónusta er þó í dag í seljunum í Sandgerði, Garði og Vogum, en í þessum bæjum eru samtals um 3.300 manns. Ekki er frágengið hvað verður um þessi sel en ég hygg að mörgum Suðurnesjamanninum brygði við ef þeim yrði lokað endanlega vegna læknaskorts.

Miðað við þá niðurstöðu sem hér er rakin virðist starfandi læknum á Suðurnesjum fara fækkandi og bætist það ofan á þá staðeynd að bráðaþjónusta á Sjúkrahúsi Keflavíkur hefur ekki verið starfrækt allan sólarhringinn alla daga vikunnar í nokkur ár, en þegar því var hætt fækkaði læknum einnig. Með það í huga að á svæðinu búa um 17 þúsund manns er þetta ekki eðlileg þróun.

Herra forseti. Ég veit að starfsfólkið á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja ætlar að leysa þessi mál og er að vinna að því af fullum krafti. Starfsmenn hafa það einnig á tilfinningunni að hæstv. heilbrrh. sé okkur hliðhollur. En þrátt fyrir allan vilja starfsmanna virðist sú staða borðleggjandi að læknaþjónustan á Suðurnesjum er að breytast verulega. Ekki ætla ég að reyna að meta það hver áhrifin af þessari breytingu verða. Ég hef það samt á tilfinningunni að breytingin sé ekki fyrir fram ákveðin og það vildi ég síst að Suðurnesin sætu uppi að endingu með færra menntað starfsfólk á heilbrigðisstofnunum en áður og verði ekki samanburðarhæft við önnur álíka fjölmenn svæði á landinu hvað þetta varðar.

Auðvitað hefur margt mátt betur fara í læknamálum sem heimamenn hefðu kannski getað leyst betur. Þar á ég helst við búsetu læknanna, en svo var komið að langflestir þeirra áttu heimili á höfuðborgarsvæðinu og keyrðu á milli. Þetta hefur ekki verið farsæl þróun og leitt til óhagkvæmari reksturs heilsugæslunnar og minni tilfinningar lækna fyrir viðskiptavinum sínum á Suðurnesjum.

Margar spurningar brenna á okkur Suðurnesjamönnum í dag um heilsugæsluna. Þess vegna hef ég, herra forseti, lagt eftirfarandi spurningar fyrir hæstv. heilbrrh.:

1. Hver er stefna ráðherra í uppbyggingu heilsugæslunnar á Suðurnesjum?

2. Hverjar eru hugmyndir ráðherra um ráðningu heilsugæslulækna á Suðurnesjum?

3. Telur ráðherra koma til greina að leyfa rekstur læknastofu sjálfstætt starfandi heilsugæslulækna en bjóða um leið sömu þjónustu lækna á heilsugæslustöð sem rekin er af ríkinu?