Heilsugæslumál á Suðurnesjum

Miðvikudaginn 05. febrúar 2003, kl. 15:09:30 (3487)

2003-02-05 15:09:30# 128. lþ. 73.6 fundur 502. mál: #A heilsugæslumál á Suðurnesjum# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 128. lþ.

[15:09]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur farið fram og hv. fyrirspyrjanda fyrir innlegg hans. Ég geri mér grein fyrir að það er ekki endalaus tími í þessu máli. Vissulega eru þrír mánuðir langur tími og nokkuð lagt á það starfsfólk sem er á Heilbrigðisstofnuninni eins og ég kom að áðan. Tengiliður minn í málinu, til þess að leita úrræða, hefur hins vegar verið nýr forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja sem hefur lagt mikið á sig til að reyna að fá fólk að stofnuninni. Það urðu vissulega vonbrigði að þeir læknar sem þarna voru skyldu ekki ráða sig aftur að einhverju eða öllu leyti. Ég hef átt reglulega fundi með forstjóranum og hún hefur gert mér grein fyrir þessum málum og haft hugmyndir um að leysa málin a.m.k. til bráðabirgða gegnum Heilbrigðisstofnunina, efla starfsemi hennar á ýmsum sviðum eða starfsemi sjúkrahúshlutans. Hún hefur unnið að þeim málum af miklu kappi veit ég og hefur fullan stuðning okkar til þess.

Varðandi ný rekstrarform tel ég að við getum ekkert beðið eftir því að sjá reynsluna af rekstri Salahverfisins. Það kemur ekki í ljós fyrr en að ári liðnu ef svo má segja. Hins vegar hefur verið miklu meiri áhugi fyrir slíkri lausn en við héldum í upphafi og okkur var sagt. Ég hef trú á því að við getum skoðað fleiri lausnir ef það verður til lausnar þessu ástandi.