Lífeyrisgreiðslur til Íslendinga erlendis

Miðvikudaginn 05. febrúar 2003, kl. 15:22:32 (3492)

2003-02-05 15:22:32# 128. lþ. 73.7 fundur 553. mál: #A lífeyrisgreiðslur til Íslendinga erlendis# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 128. lþ.

[15:22]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Hv. fyrirspyrjandi ítrekaði þýðingu þessa máls fyrir þá einstaklinga sem þarna eiga hlut að máli. Ég er hv. fyrirspyrjanda sammála um það, enda tók ég það fram í svari mínu að það geti skipt miklu máli fyrir þá að halda áunnum réttindum sínum.

Hv. fyrirspyrjandi kom einnig með hvatningu eða ábendingu um Ástralíu í þessu sambandi. Ég tek þá ábendingu til skoðunar eða tek þeirri ábendingu án þess að ég hafi svör við því á þessari stundu hver framvindan verði í því. Mér er kunnugt um að fjölmargir Íslendingar búa í Ástralíu en þangað voru miklir fólksflutningar á okkar mælikvarða fyrir um 30 árum síðan þannig að mér er vel kunnugt um að þar eru allmargir Íslendingar.

Ég fer því með þessa ábendingu hv. fyrirspyrjanda í farteskinu án þess að ég geti sagt um það á þessari stundu eða svarað hver næstu skref verða. En ég tek ábendingunni.